Erlent

Aftur­kallar öryggisheimildir Biden

Lovísa Arnardóttir skrifar
Trump afturkallaði heimildir Biden eins og Biden gerði við hann.
Trump afturkallaði heimildir Biden eins og Biden gerði við hann. Vísir/EPA

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur afturkallað öryggisheimildir Joe Biden, forvera hans í embætti forseta. Biden gerði slíkt hið sama þegar hann var forseti í kjölfar innrásarinnar í þinghúsið þann 6. janúar 2021. Í tilkynningu Trump segir að auk þess að afturkalla öryggisheimildina eigi að láta af daglegum öryggisfundum með Biden.

Trump tilkynnti um ákvörðun sína í tilkynningu á samfélagsmiðlum.

„Það er engin ástæða fyrir því að Joe Biden haldi áfram að hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum. Þess vegna afturköllum við öryggisheimild Joe Biden tafarlaust,“ segir í tilkynningunni og að Biden hafi sett fordæmi um þetta þegar hann gerði slíkt hið sama við Trump en hefð er yfir því að fyrrverandi forsetar séu upplýstir um ýmis öryggismál eftir að þeir yfirgefa embættið. Frétt Guardian um málið. 

Trump hefur frá því að hann tók aftur við sem forseti einnig afturkallað öryggisheimildir rúmlega 40 fyrrverandi starfsmanna leyniþjónustunnar auk þess sem öryggis ýmissa fyrrverandi embættismanna er ekki lengur gætt af leyniþjónustunni, það á til dæmis við fyrrverandi utanríkisráðherra hans, Mike Pompeo, og Anthony Fauci, sóttvarnalækni.

Þá rak hann í gær Colleen Shogan, yfirskjalavörð Hvíta hússins. Trump hafði áður lýst því yfir að hann myndi gera það þegar hann tæki við vegna þess að stofnunin tilkynnti dómsmálaráðuneytinu að það þyrfti að skoða hvernig Trump færi með leynileg skjöl. Shogan var fyrsta konan til að gegna þessu embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×