Fótbolti

Þrenna hjá Patrick og ferna hjá Unni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Patrick Pedersen hlóð í þrennu.
Patrick Pedersen hlóð í þrennu. Vísir/Anton Brink

Lengjubikar karla og kvenna er farin af stað og í dag er fjórum leikjum lokið.

Tveimur leikjum er lokið í A-deild karlamegin og tveimur í A-deild kvennamegin.

Karlameginn vann Valur öruggan 4-0 sigur gegn Fjölni í riðli 1 þar sem öll mörkin voru skoruð í seinni hálfleik.

Patrick Pedersen kom Valsmönnum yfir eftir klukkutíma leik áður en hann bætti öðru marki við átta mínútum síðar. Á 85. mínútu fullkomnaði framherjinn svo þrennu sína.

Valsmenn voru þó ekki hættir og Kristján Oddur Kristjánsson innsiglaði 4-0 sigur með marki á þriðju mínútu uppbótartíma.

Þá tók Breiðablik á móti Fylki í riðli 2, en upplýsingar um úrslit úr þeim leik hafa ekki borist inn á heimasíðu KSÍ.

Kvennamegin vann Þróttur svo afar sannfærandi 7-1 sigur er liðið heimsótti Fylki í riðli 1. Unnur Dóra Bergsdóttir, sem gekk til liðs við Þrótt frá Selfossi eftir síðasta sumar, gerði sér lítið fyrir og skoraði fjögur mörk fyrir Þrótt.

Að lokum vann FH 1-0 sigur gegn Stjörnunni í riðli 2 þar sem Hildur Katrín Snorradóttir skoraði eina mark leiksins strax á fyrstu mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×