Vangaveltur hafa verið um það hvort að Martin myndi mögulega mæta í lið Keflavíkur sem valdið hefur miklum vonbrigðum í vetur og situr aðeins í 10. sæti Bónus-deildarinnar. Þessi möguleiki var til að mynda nefndur í nýjasta þætti GAZins en með þeim fyrirvara að menn væru ekki vissir um hvort það væri leyfilegt.
Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, staðfesti við Vísi í dag að Remy gæti ekki spilað með Keflavík á þessari leiktíð. Til þess hefði þurft að skrá hann aftur í félagið áður en félagaskiptaglugginn lokaðist um síðustu mánaðamót.
Martin hefur ekki spilað síðan hann sleit hásin með því að renna til á auglýsingu á gólfinu í Smáranum í lok apríl á síðasta ári. Fram að því hafði hann farið á kostum með Keflavík og til að mynda átt ríkan þátt í því að liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn í tólf ár.
Umtalsverðar breytingar hafa orðið hjá Keflavík á síðustu dögum því Sigurður Ingimundarson er orðinn nýr þjálfari liðsins og þeir Jarell Reischel og Marek Dolezaj hafa verið kvaddir.
Eftir standa þó sex erlendir atvinnumenn í liðinu og þar á meðal er Callum Lawson sem kom á lokadegi félagaskiptagluggans.
Keflavík hefur tapað fjórum leikjum í röð og þarf nauðsynlega á sigri að halda gegn Haukum á fimmtudagskvöld. Þegar fimm umferðir eru eftir eru Keflvíkingar með 14 stig í 10. sæti, þó aðeins tveimur stigum á eftir næstu fjórum liðum og fjórum stigum frá 4. sæti.