Skoðun

Staða hjúkrunar

Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen skrifar

Staða hjúkr­un­ar­fræðinga á Íslandi er góð, hjúkr­un­ar­fræðing­ar eru vel menntaðir og hæf­ir, geta valið úr störf­um og fá auðveld­lega störf hvar sem er í heim­in­um. Það sama á ekki við um heil­brigðis­kerfið sem vant­ar sár­lega hjúkr­un­ar­fræðinga.

Það eru mik­il tæki­færi hér, við eig­um fjölmarga hjúkr­un­ar­fræðinga sem starfa utan heil­brigðis­kerf­is­ins. Það er tækifæri í því að fá þá til starfa í heilbrigðiskerfinu aftur. Það er hægt að gera með sanngjörnum laun­um, aðlög­un og þjálf­un við hæfi og síðast en ekki síst ör­uggu vinnu­um­hverfi og staðfestu þess að eiga ekki á hættu að verða dreg­inn fyr­ir dóm­stóla ef upp kem­ur at­vik í starfi.

Sanngjörn kjör og aukið öryggi

Hjúkr­un­ar­fræðing­ar eru ábyrg stétt sem hefur skyldum að gegna við hjúkr­un allra sjúk­linga lands­ins. Það er meiri eftirspurn eftir hjúkrunarfræðingum en framboð og er það víða þannig að ekki fást hjúkrunarfræðingar til starfa.

Því miður orsakar mannekla í faginu að stund­um þarf að fram­lengja þessa ábyrgð til ófag­lærðra, oft ætt­ingja, sem sett­ir eru í erfiða stöðu. Það kost­ar ríkið og sam­fé­lagið mikið að reka heil­brigðis­kerfið og enn kostnaðarsamara er að mennta hjúkrunarfræðinga og halda þeim svo ekki í starfi vegna gríðarlegs álags og óviðunandi launa.

Það þarf átak að fá hjúkr­un­ar­fræðinga aftur til starfa og stuðla að góðu starfsumhverfi fyrir stéttina alla svo þeir haldist í faginu.

Grunnlaun hjúkrunarfræðinga þurfa að hækka, um helmingur stéttarinnar vinnur einungis dagvinnu. Grunnlaun eru þau laun sem hjúkrunarfræðingar í dagvinnu hafa og þau eru of lág miðað við annað háskólamenntað dagvinnufólk, þessu þarf að breyta og við getum það. Mikilvægt skref var tekið í nýgerðum kjarasamningi til næstu fjögurra ára með vörpun í nýja launatöflu sem styrkir okkur í samanburði til hækkunar grunnlauna. Frekari úrvinnslu er þörf og við hjúkrunarfræðingar getum snúið bökum saman í baráttu fyrir betri kjörum og auknu öryggi við störf okkar.

Rannsóknir sýna fram á sterk tengsl milli mönnunar við hjúkrun og öryggis sjúklinga. Undirmönnun skapar vítahring, þar sem skert þjónusta ógnar öryggi sjúklinga og álag á það starfsfólk sem fyrir er eykst. Það er mikilvægt að grípa til aðgerða varðandi mönnunarviðmið, álag og gæðaviðmið, tillögur að útfærslu liggja fyrir og ekkert því til fyrirstöðu að hefjast handa.

Framúrskarandi heilbrigðisþjónusta

Við erum rík þjóð og eig­um að leggja metnað okk­ar í að tryggja framúrskarandi heilbrigðisþjón­ustu og góð starfs­skil­yrði. Sam­hliða þurf­um við að skoða fjöl­breytt þjón­ustu­form, vera óhrædd við nýj­ung­ar og hugsa út fyr­ir boxið.

Staðan í dag er ekki sjálf­bær, það er þegar verið að for­gangsraða í kerf­inu og hjúkr­un­ar­fræðing­ar undir miklu álagi og hlaupa af vakt með lista sem þeir hafa ekki náð að klára. Langvarandi vinnuálag gengur fram af hjúkrunarstéttinni og ger­ir það að verk­um að hún leitar á önnur mið.

Við erum rík þjóð og eig­um að leggja metnað okk­ar í að tryggja framúrskarandi heilbrigðisþjón­ustu og góð starfs­skil­yrði.

Ef ekk­ert verður að gert mun vöntun eftir hjúkrunarfræðingum enn aukast á komandi árum og heil­brigðisþjón­ust­an í land­inu ein­ung­is snú­ast um að slökkva elda. Það er bæði nauðsyn­legt og tíma­bært að vinna að mis­mun­andi sviðsmynd­um heil­brigðisþjón­ust­u framtíðarinnar. Tækninýjungar eru hraðar og gervigreindin mun létta undir, en ekkert mun koma í stað hjúkrunarfræðinga, þörfin eftir þeim mun halda áfram að aukast. Það er okkar samfélagsins að standa vörð um heilbrigðiskerfið og ákveða hvernig þjónustu við viljum hafa og vinna að því öllum árum. Leggj­umst sam­an á ár­arn­ar og ger­um það sem þarf.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur í framboði til formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.




Skoðun

Sjá meira


×