Handbolti

ÍBV vann Gróttu sem hefur beðið í 136 daga

Sindri Sverrisson skrifar
Gauti Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir ÍBV í dag.
Gauti Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir ÍBV í dag. vísir/Anton

Dagur Arnarsson skoraði níu mörk þegar ÍBV vann 31-29 sigur gegn Gróttu í Vestmannaeyjum í dag, í Olís-deildinni í handbolta. Ófarir Seltirninga halda því áfram en Eyjamenn eru komnir með átján stig, upp að hlið Stjörnunnar í 6.-7. sæti eftir 17 umferðir af 22.

Grótta vann fjóra af fyrstu fimm leikjum tímabilsins en hefur ekki unnið síðan þá, eða frá því að liðið vann einmitt 32-30 sigur gegn ÍBV á Seltjarnarnesi 3. október.

Leikurinn í dag var nokkuð jafn en ÍBV hafði þó yfirhöndina mestallan tímann og var 17-15 yfir í hálfleik. Heimamenn náðu svo mest fimm marka forskoti en Grótta gafst ekki upp og minnkaði muninn í eitt mark, til að mynda í 27-26 og svo aftur í 28-27 þegar enn voru sex mínútur eftir.

Eyjamenn voru hins vegar sterkari á lokasprettinum og sáu til þess að þeir færu með sigur af hólmi.

Grótta er því enn með tíu stig í 10. sæti deildarinnar, tveimur stigum fyrir ofan ÍR og fjórum fyri rofan botnlið Fjölnis.

Dagur var markahæstur hjá ÍBV en Sigtryggur Daði Rúnarsson kom næstur með sjö mörk og Daniel Veira skoraði fimm.

Hjá Gróttu var Jón Ómar Gíslason markahæstur með sjö mörk og Ágúst Ingi Óskarsson skoraði sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×