Fótbolti

Hundur í Messi: Kleip í háls aðstoðarþjálfara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi var hinn fúlasti eftir jafntefli Inter Miami og New York City.
Lionel Messi var hinn fúlasti eftir jafntefli Inter Miami og New York City. getty/Megan Briggs

Þrátt fyrir að Inter Miami hafi bjargað stigi gegn New York City í 1. umferð MLS-deildarinnar um helgina var Lionel Messi fúll og viðskotaillur eftir leikinn.

Þegar tíu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Telasco Segovia eftir sendingu frá Messi og jafnaði fyrir Inter Miami í 2-2 sem urðu lokatölur leiksins.

Engum duldist þó að Messi var ósáttur eftir leikinn. Hann reifst við dómarann Rosendo Mendoza sem fékk á endanum nóg og gaf honum gult spjald.

Þegar Messi gekk til búningsherbergja sagði Mehdi Ballouchy, aðstoðarþjálfari New York City, eitthvað við Argentínumanninn. Það var eins og olía á eldinn fyrir Messi og þeir Ballouchy byrjuðu að munnhöggvast.

Tveir úr starfsliði Inter Miami komu þá aðvífandi og svo virtist sem Messi ætlaði að láta gott heita. En hann sneri við og kleip Ballouchy aftan í hálsinn og benti honum að koma með sér. Aðstoðarþjálfarinn varð ekki við þeirri bón og Messi gekk einsamall til búningsklefa.

Messi lagði upp bæði mörk Inter Miami í leiknum í Flórída. Heimamenn voru einum færri frá 23. mínútu þegar Tomás Avilés fékk rautt spjald. En þrátt fyrir að vera manni færri og marki undir tókst Inter Miami að bjarga sér fyrir horn.

Inter Miami varð deildarmeistari í MLS í fyrra en féll úr leik fyrir Atlanta United í 1. umferð úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×