Í fréttinni segir að þess í stað snúist samkomulagið um þróun olíu-, gas- og námuvinnslu í Úkraínu. Samningurinn inniheldur engar öryggistryggingar handa Úkraínu, eins og ráðamenn þar höfðu farið fram á en úkraínskir heimildarmenn FT segja samkomulagið mun hagstæðara en upprunalega stóð til og að það gæti bætt samskipti ríkjanna.
AFP fréttaveitan hefur einnig eftir ráðamönnum í Úkraínu að samkomulag sé í höfn. Mögulega verði skrifað undir það á föstudaginn. Reuters hefur eftir heimildarmönnum sínum í Úkraínu að Selenskí fari til Bandaríkjanna og skrifi undir á föstudaginn, gangi allt eftir.
Aðstoðarfjármálaráðherra Úkraínu segir í samtali við FT að samkomulagið sé eingöngu lítill hluti af heildarmyndinni þegar kemur að samskiptum ríkjanna.
Brást reiður við höfnun
Upprunalega krafðist Trump þess að Úkraína greiði Bandaríkjunum fyrir þá hernaðaraðstoð sem ríkið hefur fengið til að verjast innrás Rússa og hefur Trump logið því að um fimm hundruð milljarða dala sé að ræða.
Trump brást reiður við þegar Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, neitaði að skrifa undir samkomulagið og byrjaði að kalla Selenskí einræðisherra og ljúga því að Úkraína og Bandaríkin beri ábyrgð á innrás Rússa.
Sjá einnig: Kallar Selenskí einræðisherra og varpar fram lygum
Meðal þeirra ástæðna sem Selenskí hefur gefið fyrir að vilja ekki skrifa undir er að samkomulagið inniheldur engar öryggistryggingar og hefur hann einnig vísað til þess að Úkraína hefur fengið mun minna en fimm hundruð milljarða dala frá Bandaríkjunum og sagt það ósanngjarnt að krefja Úkraínumenn um endurgreiðslu á aðstoð, eftir á. Ekki hafi upprunalega verið samið um slíkt.
Trump lýsti því svo yfir í gær að Selenskí gæti verið á leið til Washington DC seinna í vikunni eða þeirri næstu til að skrifa undir samkomulag þeirra á milli.
Stærstu ríkisfyrirtækin undanþegin
Blaðamenn FT hafa séð drög að samkomulaginu sem dagsett er þann 24. febrúar, eða í gær. Þar segir að stofnaður verði sjóður og að þangað muni helmingur af framtíðartekjum ríkisrekinna fyrirtækja sem vinna olíu, gas og málma úr jörðu, og tengdum innviðum.
Þessi sjóður yrði svo notaður til að fjárfesta í öðrum verkefnum í Úkraínu og uppbyggingu. Stærstu olíu- og gasvinnslufyrirtæki Úkraínu, sem ríkið reiðir á þessa dagana, eru undanskilin þessu samkomulagi.
Sjá einnig: Freistar Bandaríkjanna með gulli og grænum skógum
Seinna meir yrði komist að samkomulagi um það hverjir stjórnuðu sjóðnum og hvernig en í áðurnefndum drögum segir að Bandaríkin muni styðja við uppbyggingu í Úkraínu í framtíðinni.
Samkomulagið hefur verið samþykkt af nokkrum ráðherrum Úkraínu og stendur til að fá þingið til að samþykkja það einnig. FT segir að þar muni líklegast skapast miklar umræður um samkomulagið og áhrif þess á framtíð Úkraínu.