Innlent

Sam­mála um breytt fyrir­komu­lag vegna greiðslu bið­launa

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þau fjögur eru í framboði til formanns VR.
Þau fjögur eru í framboði til formanns VR. Samsett

Þorsteinn Skúli Sveinsson, frambjóðandi til formanns VR segir skýringar Ragnars Þórs Ingólfssonar, um hvers vegna hann þáði sex mánaða biðlaun frá félaginu eftir að hann tók sæti á Alþingi, hjákátlegar. Allir fjórir frambjóðendur til formanns VR eru sammála um að ekki sé við hæfi að fráfarandi formaður þiggi biðlaun þegar viðkomandi hefur þegar gengið í önnur störf. Stjórn VR hefur þegar tekið ákvörðun um breytingar á skilyrðum fyrir greiðslu biðlauna.

Athygli vakti í gær að Ragnar Þór Ingólfsson, fyrrverandi formaður VR, þáði ríflega tíu milljón króna greiðslu í biðlaun og uppsafnað orlof, þegar hann hætti sem formaður og tók sæti á Alþingi fyrir Flokk fólksins. Greiðslan var í samræmi við ráðningarsamning frá árinu 2017, sem er sambærilegur við samninga við fyrri formenn félagsins. Ólíkt Ragnari voru fyrri formenn flestir kjörnir út og sátu því eftir án vinnu, á meðan Ragnar hóf strax að þiggja laun á nýjum vinnustað, Alþingi.

„Mesta bull sem ég hef heyrt“

Ragnar sagði í samtali við fréttastofu í gær að peningarnir fari í neyðarsjóð fjölskyldunnar. Þorsteinn Skúli Sveinsson, sem er meðal frambjóðenda til formanns VR, segir ákvörðun Ragnars um að þiggja greiðsluna vekja siðferðislegar spurningar.

„Það geta allir lent í því, því miður, að missa sitt starf og þá erum við með stofnun hér, sem heitir Vinnumálastofnun, sem grípur þessa einstaklinga ef þeir komast ekki í önnur störf. Þess vegna fannst mér mjög hjákátlegt hjá honum í gær þegar hann kom með þá útskýringu. Menn auðvitað reyna að grafa alltaf sína gröf, en að koma með þá skýringu að hann sé að nota þetta í neyðarsjóð fyrir sína fjölskyldu, ég hef bara aldrei heyrt annað eins bull á ævi minni,“ sagði Þorsteinn í Bítinu á Bylgjunni í morgun. 

Viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum hér að neðan. 

Flosi Eiríksson, sem einnig býður sig fram til formanns, segist ekki myndu semja um sín kjör með þessum hætti. Kjör formanns ættu að hans mati að vera sambærileg við það sem félagsmenn VR njóti alla jafna. 

„Ég ætla svo sem ekki að fara að setjast í dómarasæti um það hvernig hlutirnir hafa verið gerðir í fortíðinni. En ég held að við ættum ekki að gera það til framtíðar og mig langar að horfa á það. Ég held að svona mál getir rýrt traust og trúnað félagsfólks við sitt félag og það sé svo mikilvægt að halda því trausti,“ segir Flosi. Sjálfur hafi hann ekki notið eða nýtt sér kjör um biðlaun þegar hann lét af fyrri störfum innan verkalýðshreyfingarinnar.

Flosi Eiríksson er einn fjögurra frambjóðenda til formanns VR.Vísir

Breytingar samræmist betur tilgangi biðlauna

Halla Gunnarsdóttir, formaður VR býður sig fram til áframhaldandi formennsku. Hún segir mestu máli skipta að stjórn félagsins hafi þegar brugðist við, en framvegis verða biðlaun skilyrt við að viðkomandi sé ekki í öðru starfi.

„Stjórn VR fundaði um þessi mál fyrr í þessum mánuði, að mér fjarstaddri þar sem þetta varðar minn hag af því ég er formaður, og komst að þeirri niðurstöðu að til framtíðar þá væri æskilegra að biðlaun væru skilyrt við það að viðkomandi væri ekki í starfi,“ segir Halla. „Það er auðvitað tilgangur biðlauna, að þegar fólk er kosið út eða hættir að einhverjum öðrum ástæðum og er ekki með vinnu, að það hafi borð fyrir báru. Og ég held að það skipti máli að þetta sé þannig til framtíðar. Það held ég að sé réttasta niðurstaðan í þessu máli úr því sem komið er,“ segir Halla. 

Hún ítrekar að greiðsla biðlauna til forvera síns hafi verið í samræmi við samning frá 2017 sem sé áþekkur samningum sem gerðir hafa verið við fyrri formenn félagsins. „Þau voru öll kosin út þannig það voru svolítið aðrar aðstæður. Það sem ég tel að skipti mestu máli er að framtíðarfyrirkomulagið verður ekki með þessum hætti, það er ákvörðun sem stjórn VR er þegar búin að taka og mér finnst það vera stóra málið í þessu,“ segir Halla.

Halla Gunnarsdóttir tók við formennsku í VR eftir að Ragnar Þór snéri sér að pólitík.Vísir/Vilhelm

Hún leysti Ragnar Þór fyrst af sem formaður þegar hann fór í framboð til Alþingis. Þá fór hún í leyfi frá störfum og var með samning sem rann út á kjördag, en tók svo formlega við formennsku þegar fyrir lá að Ragnar náði kjöri til Alþingis.

Er sambærilegt ákvæði um biðlaun í þínum núgildandi samningi?

„Ég tók formlega við af honum í desember og þá féll ég í rauninni frá sex mánaða réttindum og við styttum það í þrjá mánuði. Af því okkur þótti svolítið undarlegt að ég væri hérna inni í nokkra mánuði en ef ég yrði svo kosin út, að ég yrði síðan á launum í hálft ár. Þannig ég er með þriggja mánaða rétt,“ svarar Halla.

Myndir þú þiggja þessi biðlaun ef svo fer að þú nærð ekki kjöri áfram sem formaður?

„Í fyrsta lagi þá ætla ég mér að vera hér formaður áfram. En ef svo færi að það gengi ekki eftir þá mun ég sitja uppi atvinnulaus og þarf þá bara tíma til þess að greiða úr því,“ svarar Halla.

Segir erfitt að fá vinnu eftir starfsframa í verkalýðshreyfingu

Bjarni Þór Sigurðsson, sem einnig situr í stjórn VR og býður sig fram til formanns, vék einnig þegar stjórn tók ákvörðun um breytt skilyrði vegna biðlauna formanns. „Það eru engin ákvæði um það í samningnum að þetta sé valkvætt fyrir VR. Hér er verið að greiða upp samning með engum fyrirvara þannig það er bara eðlilegt. Það hefur verið á ferðinni umræða um að stjórn VR hefði átt að grípa í taumana og neita að greiða þetta. Það hefði verið saga til næsta bæjar ef VR hefði ekki viljað uppfylla ráðningarsamning,“ segir Bjarni.

Bjarni Þór Sigurðsson hefur setið í stjórn VR frá árinu 2012.

Hann telur ákvörðun stjórnar um skýrari skilyrði vera rétta. „Það skiptir máli að þessir ráðningarsamningar við formenn séu skilyrtir með þessum hætti, að ef að viðkomandi fær starf að þá falli biðlaun niður, að það sé skynsamlegt. En þess ber að geta að það er erfitt að fá vinnu eftir starfsframa í verkalýðsfélagi,“ segir Bjarni. Greiðslan til Ragnars hafi samræmst gildandi samningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×