Viðskipti innlent

Önnur Airbus-þotan væntan­leg á morgun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Airbus-þota Icelandair númer tvö við Airbus-verksmiðjurnar í Hamborg. Hún fær heitið Lómagnúpur og skrásetningarstafina TF-IAB.
Airbus-þota Icelandair númer tvö við Airbus-verksmiðjurnar í Hamborg. Hún fær heitið Lómagnúpur og skrásetningarstafina TF-IAB. Icelandair

Önnur Airbus-þota Icelandair er væntanleg til Íslands á morgun frá verksmiðjunum í Hamborg. Áætlað er að hún lendi í Keflavík í hádeginu, um klukkan 12:30. Þotan fær nafnið Lómagnúpur og skrásetningarstafina TF-IAB.

„Það er hins vegar enn beðið eftir lokaheimildum til ferjuflugs, svo þetta gæti breyst,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Icelandair mun taka alls fjórar nýjar Airbus-þotur í þjónustu sína fyrir vorið. Samtímis hverfa jafnmargar eldri Boeing 757-þotur úr áætlunarfluginu.

Von er á þriðju Airbus-þotunni í marsmánuði, TF-IAC, sem bera mun nafnið Dynjandi. Fjórða þotan, TF-IAD, fær nafnið Ásbyrgi og er hún væntanleg í aprílmánuði.

Fyrsta Airbus-þotan, TF-IAA, hlaut nafnið Esja. Hún var afhent félaginu í Hamborg þann 2. desember síðastliðinn, eins og sjá má hér:

Henni var flogið til Íslands daginn eftir, þann 3. desember. Fór hún útsýnishring yfir Reykjavíkursvæðinu áður en lent var í Keflavík, en heimkomuna má sjá hér:

Fyrsta áætlunarflugið var svo þann 10. desember, sem upplifa má hér:


Tengdar fréttir

Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans

Ráðamenn Icelandair hyggjast á næstu misserum taka ákvörðun um það hvort stefnt verði á að hafa eingöngu Airbus-þotur í flugflotanum og eins hvort breiðþotur verði hluti af framtíðarflota félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×