Handbolti

Hópurinn gegn Grikkjum: Ní­tján ára ný­liði í markinu

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Steinsson á góðri stund á EM U20-landsliða í fyrra.
Ísak Steinsson á góðri stund á EM U20-landsliða í fyrra. HSÍ

Snorri Steinn Guðjónsson valdi meðal annars nítján ára nýliða í landsliðshóp sinn fyrir komandi leiki við Grikkland í undankeppni EM karla í handbolta.

Nýliðinn heitir Ísak Steinsson og er markvörður Drammen í Noregi, þar sem hann hefur búið mestalla sína ævi. Hann hefur leikið fyrir yngri landslið Íslands og valdi þau fram yfir Noreg.

Snorri tók fram á blaðamannafundi í dag að hann hefði beðið lengur en ella með að velja landsliðshópinn núna vegna meiðsla hjá leikmönnum.

Fjölda sterkra leikmanna vantar í hópinn en Snorri sagði að búast mætti við að það bætist leikmenn við 16 manna hópinn sem hann kynnti í dag. Í hópnum eru Andri Rúnarsson og hægri skytturnar Arnór Snær Óskarsson og Kristján Örn Kristjánsson, auk Ísaks, sem ekki voru á HM í janúar.

Vinstra horn:

Orri Freyr Þorkelsson, Sporting

Stiven Valencia, Benfica

Vinstri skyttur:

Andri Rúnarsson, Leipzig

Aron Pálmarsson, Veszprém

Þorsteinn Leó Gunnarsson, Porto

Miðjumenn:

Janus Daði Smárason, Pick Szeged

Haukur Þrastarson, Dinamo Búkarest

Hægri skyttur:

Arnór Snær Óskarsson, Kolstad

Kristján Örn Kristjánsson, Skanderborg

Hægra horn:

Óðinn Þór Ríkharðsson, Kadetten Schaffhausen

Sigvaldi Guðjónsson, Kolstad

Línumenn:

Elliði Snær Viðarsson, Gummersbach

Ýmir Örn Gíslason, Göppingen

Einar Þorsteinn Ólafsson, Fredericia

Markmenn:

Ísak Steinsson, Drammen

Viktor Gísli Hallgrímsson, Wisla Plock

Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur átt við meiðsli að stríða, líkt og Ómar Ingi Magnússon.

Elvar Örn Jónsson var einnig að meiðast og línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson er að komast af stað aftur eftir meiðsli.

Viggó Kristjánsson er einnig meiddur sem og Teitur Örn Einarsson, svo að þrjár af helstu hægri skyttum liðsins eru úr leik vegna meiðsla.

Sveinn Jóhannsson og Bjarki Már Elísson sem báðir voru í HM-hópnum eru einnig ekki með núna en Bjarki meiddist á mótinu.

Björgvin Páll Gústavsson er ekki í hópnum að þessu sinni en þeir Viktor Gísli eru enn bestu markverðir Íslands að sögn Snorra.

Ísland er á góðri leið í átt að sínu fjórtánda Evrópumóti í röð eftir að hafa unnið Bosníu og Georgíu í nóvember.

Nú taka við tveir leikir við Grikkland, 12. mars í Kalkida á eyjunni Evia og svo 15. mars í Laugardalshöll, áður en undankeppninni lýkur svo með tveimur leikjum í maí.

Ísland er efst í sínum riðli með fjögur stig, Grikkland og Bosnía eru með tvö og Georgía án stiga. Efstu tvö liðin fara á EM og liðið í 3. sæti gæti einnig komist þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×