Innlent

Bjarkar­gata varð Bjargargötu að falli

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Það munar aðeins einum bókstaf á nafni gatnanna.
Það munar aðeins einum bókstaf á nafni gatnanna. Grafík/Sara

Reykjavíkurborg þarf að velja nýtt nafn á Bjargargötu samkvæmt úrskurði örnefnanefndar. Götuheitið þykir of líkt Bjarkargötu sem er steinsnar frá Bjargargötu.

Bjargargata var nýlega skráð fyrir götu sem liggur í Vatnsmýri í Reykjavík. Bjarkargata liggur hinsvegar meðfram Hljómskálagarðinum.

„Örnefndanefnd álítur ótvírætt að þessi munur sé svo lítill að mikil hætta sé á ruglingi, sér í lagi þegar talað er í síma. Af þeim sökum er nýnefnið Bjargargata til þess fallið að skapa óhagræði og hættu fyrir íbúa Bjarkargötu sem og þá sem hverju sinni eru staddir á þessum götum,“ stendur í úrskurði örnefnanefndar.

Í tólftu grein reglugerðar um um skráningar staðfanga segir að innan hverfis skuli ekki nota samhljóða eða lík heiti staðvísa innan hverfisins en báðar göturnar liggja í miðborg Reykjavíkur.

Reykjavíkurborg hefur átta vikur til að bregðast við ákvörðuninni. Fáist ekki svar innan átta vikna mun örnefnanefnd úrskurða um nýtt nafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×