Árásirnar eru meðal annars sagðar hafa beinst að ratsjám Húta, loftvarnarkerfum og getu þeirra til að skjóta eldflaugum og fljúga drónum. New York Times segir að minnsta kosti einn háttsettan yfirmann Húta hafa verið skotmark árásanna.
Bandarískir embættismenn segja að árásirnar gætu haldið áfram í nokkrar vikur en það færi að miklu leyti eftir viðbrögðum Húta. Mikið af hergögnum þeirra væru djúpt grafin í jörðu en hingað til hefur Bandaríkjamönnum gengið erfiðlega að finna vopnakerfi Húta.
Þau eru talin framleidd í niðurgröfnum verksmiðjum og einnig er þeim smyglað til landsins frá Íran.

Í færslu sem hann skrifaði á samfélagsmiðil sinn í gærkvöldi sagði Trump að Hútar hefðu stundað látlaust sjórán, ofbeldi og hryðjuverkastarfsemi gegn bandarískum og öðrum skipum og flugvélum.
Biden hefði aldrei svarað þessu af hörku og því hefðu Hútar haldið linnulaust áfram.
Sjá einnig: Skutu niður eigin herþotu yfir Rauðahafi
„Það er liðið rúmt ár frá því að bandarísku skipi var siglt gegnum Súesskurðinn, Rauðahafi og Adenflóa með öruggum hætti,“ skrifaði Trump. „Síðasta herskipið sem fór gegnum Rauðahafið, fyrir fjórum mánuðum síðan, varð fyrir rúmlega tólf árásum húta.“
Þá beindi Trump orðum sínum beint til Húta og sagði tíma þeirra liðinn. Þeir myndu láta af árásum sínum, annars myndi hann láta þá finna fyrir því eins og þeir hefðu aldrei gert áður.
Trump sendi klerkastjórninni í Íran, sem stutt hefur Húta, einnig tóninn og sagði þeim að hóta ekki amerísku þjóðinni eða forseta hennar.
Bandaríkjamenn bitu meðfylgjandi myndefni í gærkvöldi.
CENTCOM operations against Iran-backed Houthis continue... pic.twitter.com/DYvc3gREN8
— U.S. Central Command (@CENTCOM) March 15, 2025
Segja 31 liggja í valnum
Hútar segja að minnsta kosti 31 liggja í valnum eftir árásir Bandaríkjamanna og segja að þar af sé að mestu um að ræða konur og börn. Þá hefur Reuters eftir leiðtogum Húta að árásirnar séu stríðsglæpur og að þeim verði svarað.
Íbúar í Sanaa segja við blaðamenn Reuters að árásir Bandaríkjamanna þar hafa beinst gegn þekktu vígi Húta.
Frá því hernaður Ísraela gegn Hamas á Gasaströndinni hófst í október 2023 hafa Hútar gert ítrekaðar dróna- og eldflaugaárásir á fraktskip og herskip á Rauðahafi. Hútar hafa gert árásir á rúmlega hundrað fraktskip með eldflaugum og drónum. Tvo skip hafa sokkið og fjórir dáið í þessum árásum.
Verulega hefur dregið úr þessum árásum að undanförnu, að hluta til vegna færri siglinga um svæðið, en leiðtogar Húta lýstu því yfir á dögunum að þeir ætluðu að hefja þær aftur.
Hútar hafa einnig gert ítrekaðar árásir á Ísrael, sem hafa svarað með eigin árásum.
Hútar, sem njóta stuðnings frá Íran, hafa um árabil háð blóðuga styrjöld við alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld í Jemen. Þeir hafa sömuleiðis gert árásir í Sádi-Arabíu en Sádar hafa staðið við bakið á yfirvöldum í Jemen.
Hópurinn stjórnar Sanaa, höfuðborg Jemen, og stórum hlutum landsins í norðri og vestri. Átökin hafa leitt til hrikalegs mannúðarástands í Jemen, þar sem fátækt er mikil. Hungursneyð og smitsóttir hafa leikið í íbúa landsins grátt.
Til að komast inn í Rauðahaf úr suðri og þaðan gegnum Súes-skurðinn inn á Miðjarðarhafið þarf að sigla skipum um Aden-flóa og Bab al-Mandab-sund. Skipin fara því mjög nærri ströndum Jemen og yfirráðasvæði Húta.
NYT segir einhverja af ráðgjöfum Trumps vilja ganga enn lengra og í raun reyna að reka Húta á brott frá yfirráðasvæði þeirra. Það hefur Trump ekki viljað samþykkja af ótta við að Bandaríkin endi í enn einum langvarandi átökum í Mið-Austurlöndum en Trump hefur heitið því að svo verði ekki.
Hingað til hafa árásirnar verið gerðar frá flugmóðurskipinu USS Harry S. Truman, þremur tundurspillum og einu beitiskipi, sem eru á Rauðahafi. Kafbáturinn USS Georgia er einnig á svæðinu, samkvæmt AP fréttaveitunni.
CENTCOM Forces Launch Large Scale Operation Against Iran-Backed Houthis in Yemen
— U.S. Central Command (@CENTCOM) March 15, 2025
On March 15, U.S. Central Command initiated a series of operations consisting of precision strikes against Iran-backed Houthi targets across Yemen to defend American interests, deter enemies, and… pic.twitter.com/u5yx8WneoG
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hefur samkvæmt NYT reynt að fá Trump með sér í lið til að gera loftárásir í Íran, með því markmiði að gera útaf við kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins. Hann vilji nýta sér veikar loftvarnar Íran eftir umfangsmiklar loftárásir Ísraela þar í landi í fyrra.