Hin 25 ára Khelif, sem er frá Alsír, vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í París síðasta sumar en þurfti um leið að þola alls konar háðsglósur og rangar fullyrðingar um að hún væri karlmaður eða trans kona.
Á meðal þeirra sem breiddu út lygar um Khelif voru rithöfundurinn J.K. Rowling, auðkýfingurinn Elon Musk og núverandi Bandaríkjaforseti Trump sem í kosningabaráttu sinni sagði Khelif vera karlmann sem hefði breytt sér í konu.
„Þau töluðu um mig án þess að hafa staðreyndirnar á hreinu. Það var áfall fyrir mig. Þau töluðu án þess að hafa neinar áreiðanlegar upplýsingar,“ segir Khelif.

Trump verður að óbreyttu enn forseti þegar Ólympíuleikarnir í Los Angeles verða haldnir en Khelif segist í einkaviðtali við ITV, sem birt verður í kvöld, ekki hafa neitt að óttast.
„Ég skal tala hreint út. Forseti Bandaríkjanna tók ákvörðun um stefnu varðandi trans fólk í Bandaríkjunum. Ég er ekki trans. Þetta hefur ekki áhrif á mig og veldur mér ekki ótta. Það er svarið mitt,“ segir Khelif í viðtalinu eftir að hafa ítrekað að hún stefni á önnur gullverðlaun í Los Angeles.
Khelif said she hopes to retain her gold medal at the Los Angeles Olympics in 2028, and would not be "intimidated" by President Trump, who called her "a good male boxer" last year.
— ITV News (@itvnews) March 18, 2025
Full story: https://t.co/csppnnviEO pic.twitter.com/1j8gcFcZgM
Þar segir hún einnig að falsfréttaumræðan í kringum þátttöku hennar á Ólympíuleikunum hafi haft mikil áhrif á fólkið sem standi henni næst.
„Þetta hafði djúpstæð áhrif á mömmu mína. Hún fór á spítalann nánast daglega. Ættingjar mínir fundu einnig fyrir þessu og þetta bitnaði á allri alsírsku þjóðinni. Þetta gekk lengra en að vera eitthvert íþróttamál eða keppni. Þetta þróaðist út í risastóra fjölmiðlaherferð,“ segir Khelif og bætir við að þetta hafi reynst afar erfitt.