Innlent

Sjö hand­teknir og einn stunginn þrisvar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Frá vettvangi í nótt.
Frá vettvangi í nótt. Vísir/Viktor

Sjö voru handteknir í tengslum við rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í vegna máls þar sem einn var stunginn þrisvar með hnífi og annar laminn í höfuðið í gærkvöldi. Svo kom til átaka milli annarra, hvort sem það mál tengist hinu er ekki ljóst að svo stöddu, en vegna þess máls voru þrír handteknir.

Elín Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Greint var frá því seint í gærkvöldi að lögreglan hefði verið með mikinn viðbúnað við Ingólfstorg í Reykjavík. Talið væri að um hnífstunguárás væri að ræða sem hefði beinst að dyravörðum.

Elín Agnes segir að þessir tveir særðu séu ekki í lífshættu. Vonir standa til þess að þeir muni geta rætt við lögreglu í dag.

„Þetta er í rannsókn og framundan eru skýrslutökur og yfirheyrslur,“ segir Elín. „Framundan er langur dagur þar sem við þurfum að vinna að þessum málum.“

Hún getur ekki tjá sig að svo stöddu um hvort talið sé að málið varði væringar í undirheimunum.

Lögreglan var með mikinn viðbúnað á vettvangi í nótt.Vísir/Viktor



Fleiri fréttir

Sjá meira


×