Umræðan

Inn í ó­vissuna

Eyþór Ívar Jónsson skrifar

Að undanförnu hafa margir þurft að dusta rykið af bókum um hernaðarlist. Óvissan sem fyrirtæki og stofnanir standa frammi fyrir hefur sennilega aldrei verið meiri. Stríðsyfirlýsingar hvort sem er í stjórnmálum eða viðskiptum verða algengari og þar sem áður var samkomulag og samvinna er nú vantraust og óvinátta.

Þessi staða snýst ekki lengur um áhættu, þ.e. þegar við vitum hvaða möguleikar eru til staðar og getum reiknað líkur á hverjum þeirra, heldur óvissu, þ.e. þegar við vitum ekki einu sinni hverjir möguleikarnir eru eða getum ekki reiknað líkur á niðurstöðum, eins og hagfræðingurinn Frank H. Knight hefði orðað það.

Við siglum inn í nýja tíma, inn í miklu meiri óvissu en áður.

Stríðsyfirlýsingar

Það er ýmislegt sem bendir til þess að forseti Bandaríkjanna hafi leitað í uppskrift Machiavelli úr bókinni Il Principe (Fyrirliðinn) frá 1532 varðandi hvernig á að ná árangri. Machiavelli taldi að árangur skiptir meira máli en aðferðin. Þeir sem ætla sér sigur þurfa að vera tilbúnir að taka erfiðar ákvarðanir, jafnvel þó að þær gætu ekki talist siðferðislega réttar.

Machiavelli taldi að það sem fólk trúir að sé satt skiptir meira máli en raunveruleikinn sjálfur. Hann taldi að leiðtogar yrðu að byggja upp sterka ímynd, jafnvel þótt hún væri ekki sönn. Machiavelli lagði áherslu á að leiðtogar ættu helst að vera bæði elskaðir og að fólk óttaðist þá – en ef þeir þyrftu að velja, þá væri betra að fólk óttaðist þá.

Krugman bendir á hið augljósa, nýju fötin keisarans, að það er enginn dýpri hugmyndafræði eða skilningur á bak við aðgerðir núverandi Bandaríkjastjórnar heldur byggir hún á einfaldri óskhyggju.

Stríðsyfirlýsingar forseta Bandaríkjanna hafið vakið upp einn frægasta frasa hernaðarfræðanna og jafnframt einn þann misskildasta: Stríð er framlenging á stjórnmálum með öðrum aðferðum.

Það sem hernaðarsérfræðingurinn Clausewitz átti við var að stríð væri aldrei tilgangur í sjálfu sér, heldur tæki sem ríki nota til að ná pólitískum markmiðum.

Stríðsþokan

Það eru ekki margir sem aðhyllast hugmyndafræði Machiavelli án þess að hafa einhverja einræðistilburði. En kannski eru einræðistilburðir komnir í tísku. Machiavelli var ráðgjafi, rithöfundur og pólitíkus en hafði talsverð áhrif á hugmyndir í hernaðarmálum í Lýðveldinu Flórens.

Það er þó annar hugmyndafræðingur sem oftar er nefndur í tengslum við hernaðarfræði, sem var sjálfur herforingi, en það er prússneski herforinginn og hugsuðurinn Carl von Clausewitz. Bók hans, sem hann kláraði þó aldrei, Om Kriege (On War) kom út árið 1832. Bókin er eitt áhrifamesta hernaðar- og stefnumótunarrit allra tíma og hefur haft mikil áhrif á bæði hernaðarfræði og stjórnun og stefnumótun í viðskiptum.

Ef Machiavelli kenndi leiðtogum hvernig á að halda völdum, kenndi Clausewitz þeim hvernig á að bregðast við þegar allt breytist. Clausewitz fjallar um óvissuna. Hann lagði áherslu á að það verður að taka ákvarðanir í stríði með ófullkomnar upplýsingar. Hann kallaði þetta þoku stríðsins, þar sem stjórnendur og herforingjar þurfa að taka mikilvægar ákvarðanir með takmarkaða innsýn í raunverulega stöðu mála. Fyrirtæki í samkeppnisumhverfi þurfa að takast á við óvissu og taka ákvarðanir byggðar á ófullkomnum gögnum – og þar skiptir stefnumótun lykilmáli.

Hagfræðilegur veruleiki

Nóbelsverðlaunahagfræðingurinn Paul Krugman hefur að undanförnu verið að fjalla mikið um alþjóðaviðskipti í skugga tollastríðs. Hann er vel til þess fallinn enda einn helsti sérfræðingur heimsins í alþjóðaviðskiptum í hagfræðilegu samhengi. Krugman sparar ekki stóru orðin um efnahagsaðgerðir og hugmyndir forseta Bandaríkjanna um alþjóðaviðskipti.

Drifkraftur aukinnar óvissu núna er pólitískur, efnahagslegur og jafnvel lagalegur þegar lög og reglur virðast í auknum mæli háð geðþótta yfirvaldsins.

Krugman bendir á hið augljósa, nýju fötin keisarans, að það er enginn dýpri hugmyndafræði eða skilningur á bak við aðgerðir núverandi Bandaríkjastjórnar heldur byggir hún á einfaldri óskhyggju. Röð aðgerða byggðar á óskhyggju og ranghugmyndum frekar en að það sé einhver áætlun eða stefna þar að baki. Hugsanlega gæti þó planið verið að búa til ringulreið bara til að búa til ringulreið. Fyrrverandi forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, lýsti þessu best þegar hann fjallaði um tollahækkanir Bandaríkjanna á Kanada og sagði að þetta væri einfaldlega heimskulegt!

Clausewitz sagði: Án skýrrar stefnu verður ringulreið ekki vopn, heldur veikleiki.

Það er kannski erfitt að tala um hagfræðilegan veruleika þegar hagfræði eru félagsvísindi en staðan sem komin er upp núna í alþjóðlegu stjórnmála – og viðskiptaumhverfi einkennis af óvissu. Við erum í þokunni hans Clausewitz. Íslensk fyrirtæki og stjórnmálamenn virðast ekki vera á einu eða neinu máli t.d. hvað varðar áhrif alþjóðlegs tollastríðs á íslensk fyrirtæki og efnahag.

Aðlögunarhæfnin

Clausewitz gagnrýndi fyrri hugmyndir um hernaðarlist á sínum tíma sem gengu út á að hafa skýra áætlun til þess að fara eftir í einu og öllu. Hann var meðvitaður um að engin áætlun lifir óbreytt þegar hún er komin í framkvæmd. Þetta var eitthvað sem sérfræðingar í stefnumótunarfræðum áttuðu sig á þegar fór að líða á níunda áratug síðustu aldar. Þangað til snérist stefnumótun fyrst og fremst um að gera áætlanir og hafa skýrar reglur og leiðbeiningar um allt og ekkert. Nú er Snorrabúð stekkur.

Það sem hefur verið að gerast á síðustu árum og misserum er að óvissan hefur verið að aukast á kostnað fyrirsjáanleikans. Lengi vel voru það tæknibreytingar sem voru að hræra í „veruleikanum“ og leiða til skapandi eyðileggingar að hætti Josephs Schumpeters, þ.e. að nýjar lausnir gera aðrar úreltar og til verður nýr markaður um leið og aðrir hverfa. Drifkraftur aukinnar óvissu núna er pólitískur, efnahagslegur og jafnvel lagalegur þegar lög og reglur virðast í auknum mæli háð geðþótta yfirvaldsins.

Machiavelli taldi að skynsamur leiðtogi umkringdi sig hæfum og traustum ráðgjöfum, en veikburða eða óskynsamur leiðtogi væri umkringdur huglausum eða óhæfum einstaklingum sem gætu ekki veitt gagnleg ráð.

Clausewitz talaði um að ástæðan fyrir því að áætlanir gengu ekki upp væru að það væru fullt af litlum ófyrirsjáanlegum atriðum sem kæmu upp í stríði og gerðu áætlunina í raun ónýta. Þessi núningur, eins og hann orðaði það, felur í sér að óvæntir þættir krefjast sveigjanleika og aðlögunarhæfni. Lykilatriði í óvissu er að geta brugðist hratt við og nýtt sér breyttar aðstæður sem tækifæri frekar en að láta slá sig út af laginu.

Eðli málsins samkvæmt er auðveldara fyrir minni fyrirtæki að bregðast hratt við óvissu ytri aðstæðna. En leikurinn snýst um að finna tenginguna, tækifærið, sem felst í því að þróa styrkleika sem nýta nýjar ytri aðstæður. Það er þess vegna ekki skrítið að Darwinismi hefur verið nefndur í tengslum við hugmyndafræði Clausewitz og seinni tíma stefnumótunarfræðinga sem byggja hugmyndir sína á kviku umhverfi og kvikri hæfni.

Umkringdur snillingum

Ein af grunnhugmyndum Clausewitz er líka hugmynd sem er þekkt innan seinna tíma stefnumótunarfræða en það er hugmyndin um kjarnafærni. Clausewitz líkti þessu við þyngdarlögmál, miðlægan styrkleika sem heldur öllu uppi. Hann sá þetta bæði sem hugmyndafræði til þess að byggja upp öfluga hersveit og sem leið til þess að vinna stríð. Ef honum tækist að veikja þennan miðlæga styrkleika andstæðingsins gæti hann unnið stríðið. Í dag er þessi auðlindamiðaða sýn grunnur að góðri stefnumótun, allavega í akademískum skilningi. Fyrirtæki verða að skilja hvað gefur þeim samkeppnisforskot og vernda það, á meðan þau leita að veikleikum hjá keppinautum.

Í þekkingarhagkerfi, sem er í mikilli umbreytingu núna, er kjarnafærnin oft fólgin í finna rétta fólkið sem kann, skilur og getur. Það hefur líka verið rauður þráður í leiðtogafræðum, ekki síður en hernaðarfræðum, að góður leiðtogi umkringir sig af góðu fólki sem getur séð önnur tækifæri og ógnanir en hann sjálfur. Þetta voru meira að segja ein helstu skilaboð Machiavelli.

Machiavelli kenndi okkur að leiðtogi er metinn út frá teymi sínu. Í dag þurfa fyrirtæki og stjórnmálamenn ekki aðeins að skilja þetta – heldur að lifa eftir því.

Machiavelli taldi að skynsamur leiðtogi umkringdi sig hæfum og traustum ráðgjöfum, en veikburða eða óskynsamur leiðtogi væri umkringdur huglausum eða óhæfum einstaklingum sem gætu ekki veitt gagnleg ráð. Hann benti á að góðir stjórnendur og leiðtogar væru ekki þeir sem vissu allt sjálfir, heldur þeir sem vissu hvernig á að velja rétta fólkið til að hjálpa sér að taka ákvarðanir. Þetta er mikilvægt þegar leiðin liggur inn í óvissuna.

Það getur hver dæmt fyrir sig hvað varðar stjórnmálaleiðtoga samtímans hvort að þetta sé leiðarljós þeirra.

Að leiðarlokum

Að sigla í gegnum óvissu snýst ekki um að forðast breytingar heldur um að kunna að nýta þær. Clausewitz kenndi okkur að ekkert stríð fer nákvæmlega eftir áætlun. Machiavelli kenndi okkur að leiðtogi er metinn út frá teymi sínu. Í dag þurfa fyrirtæki og stjórnmálamenn ekki aðeins að skilja þetta – heldur að lifa eftir því.

Höfundur er forseti Akademias. Greinin er skrifuð í tengslum við námskeiðið: Sérfræðingur í stefnumótun og skipulagi fyrirtækja.




Umræðan

Sjá meira


×