Tilkynning um að sérstök lykt væri af neysluvatni í Hveragerðisbæ birtist á vefsíðu bæjarins í gær.
„Búið er að óska eftir að Heilbrigðiseftirlitið komi sem fyrst, taki sýni og athugi málið. Þá eru bæjarstarfsmenn einnig að skoða þessar ábendingar,“ stendur í tilkynningunni.
„Það er búið að taka sýni og það er til rannsóknar,“ segir Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands í samtali við fréttastofu.
„Það er staðfest að það er skrýtin lykt og bragð en það tekur tíma. Sýnið fór á rannsóknarstofu í dag,“ segir hún.
Fyrstu vísbendingar um hvort eitthvað sé að neysluvatninu ættu að koma í ljós á morgun en rannsóknin í heild ætti að taka um þrjá daga.
Málið var tekið fyrir á Facebook-síðu íbúa í Hveragerði þar sem margir íbúar sögðu að skrýtin lykt væri af vatninu og jafnvel skrýtið bragð.
Einn íbúinn sagðist ekki hafa getað drukkið vatnið í nokkra daga svo vont væri það og annar sagði vatnið bragðist eins og olía.
Þriðji íbúinn ráðleggur hinum að halda fyrir nefið og drekka svo viðkomandi finni ekki lyktina.