Skoðun

Drögum úr for­dómum í garð Breið­holts

Alex Vor Ólafs, Jörundur Þór Hákonarson og Theodóra Líf Reykdal skrifa

Síðastliðnar vikur hafa fjölmargar fréttir birst um ofbeldi, áreitni og einelti meðal ungmenna. Þetta er því miður ekkert nýtt vandamál – slíkt virðist hafa aukist á undanförnum árum og er nú veruleiki sem snertir samfélagið allt. Í kjölfar alvarlegra atvika má oft greina ákveðið mynstur í fjölmiðlaumfjöllun: spjótin beinast að Breiðholti.

Staðreyndin er sú að mörg hverfi og staðir glíma við sambærileg vandamál. Þrátt fyrir það virðist sem fjölmiðlar vilji einblína sérstaklega á Breiðholtið og draga fram neikvæða mynd af hverfinu. Þegar við ræðum við unglinga úr öðrum hverfum rekumst við iðulega á fordómafull viðhorf og undrun yfir því að í Breiðholti séu líka venjuleg börn og öflug samfélagsmenning. Þessi fyrirframgefna hugmynd um Breiðholtið byggist oft á einhliða og neikvæðri umfjöllun.

Það er erfitt að horfa upp á hvernig ráðist er að stolti hverfisins og orðspor þess skaðað í gegnum markvissan fréttaflutning. Það er eins og gleymist að í öllu þessu sé verið að fjalla um börn – börn sem búa í Breiðholti, börn sem eiga rétt á því að vaxa úr grasi við virðingu og stuðning, en ekki fordóma og dómhörku. Það að ýta undir fordóma er ekki leið til þess að stuðla að betra samfélagi.

Alex Vor Ólafs, Jörundur Þór Hákonarson og Theodóra Líf Reykdal, fyrir hönd ungmennaráðs Breiðholts.




Skoðun

Sjá meira


×