Skoðun

Hvernig getum við notað nýjar ráð­leggingar um matar­æði?

Óla Kallý Magnúsdóttir og Jóhanna E. Torfadóttir skrifa

Þann 12. mars síðastliðinn voru birtar nýjar ráðleggingar um mataræði sem embætti landlæknis gefur út. Þessar ráðleggingar eru ætlaðar fyrir alla eldri en 2 ára og upp til sjötugs sem eru alla jafna heilsuhraust. Sértækar ráðleggingar eru svo fyrir barnshafandi, með barn á brjósti, börn yngri en 2 ára og eldri einstaklinga háð heilsufari. Með því að fylgja ráðleggingum um mataræði er hægt að tryggja líkamanum þau næringarefni sem hann þarf á að halda, stuðla að góðri heilsu og vellíðan og minnka líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum. Fyrir þau sem eru til dæmis með ofnæmi eða óþol, útiloka margar fæðutegundir í sínu mataræði, glíma við sjúkdóma eða eru afreksíþróttafólk gilda aðrar ráðleggingar. Í slíkum tilvikum getur verið æskilegt að leita eftir einstaklingsráðgjöf frá löggiltum næringarfræðingi eða næringarráðgjafa sem hefur þá tekið 4-5 ára háskólanám til að hafa viðeigandi þekkingu til að veita slíka ráðgjöf. Oftast eru líka um ákveðna sérhæfingu að ræða meðal næringarfræðinga þar sem viðkomandi hefur til dæmis sérhæft sig í ákveðnu aldursskeiði, næringu á meðgöngu og við brjóstagjöf og/eða ákveðnum heilsuvanda eða sjúkdómaflokki. Í dag eru samtals 5 stöðugildi fyrir næringarfræðinga eða næringarráðgjafa sem geta sinnt næringarráðgjöf og -meðferð á heilsugæslum landsins. Einnig er hægt að leita til sjálfstætt starfandi næringarfræðinga en ráðgjöf og meðferð þeirra er ekki niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands.

Það sem virkar fyrir einn í mataræði hentar ekki endilega öðrum

Ráðleggingar um mataræði byggja á stórum hóprannsóknum. Það þýðir að við sjáum að ef stórir hópar borða í samræmi við ráðleggingarnar þá fá þeir síður heilsukvilla og sjúkdóma. Það þýðir samt ekki að við sem einstaklingar sem fylgjum ráðleggingum getum verið örugg um að sleppa frá heilsufarsvanda einhvern tímann um ævina heldur að það séu minni líkur á ýmsum sjúkdómum og að við getum jafnvel seinkað því að lenda í heilsuvanda. Það er svo ótalmargt margt annað en mataræði sem hefur líka áhrif á þróun heilsuvanda, eins og erfðir og umhverfisþættir svo sem hreyfing, streita, svefn, áföll og fleira.

Hollt og fjölbreytt mataræði má setja saman á marga mismunandi vegu. Það sem virkar fyrir einn í mataræði hentar ekki endilega öðrum. Ráðleggingarnar eru hugsaðar sem grunnur, þannig að hver og einn skoði þær og meti hvernig þær gætu hentað inn í daglegt líf viðkomandi. Það er vel mögulegt að viðkomandi geti eða vilji ekki borða allar fæðutegundir sem mælt er með eða fylgt ráðleggingum í einu og öllu og það er allt í lagi. Það getur hins vegar verið gott að prófa að tileinka sér einhvern hluta þeirra, eins og til dæmis að auka hlut ávaxta, grænmetis og heilkornavara í fæðinu. Ráðleggingarnar taka ekki heldur mið af mismunandi orkuþörf einstaklinga háð aldurskeiði eða hreyfingu. Því þarf hver og einn að horfa gagnrýnum augum á hvað passar miðað við aðstæður hverju sinni.

Af hverju getur verið erfitt að fylgja ráðleggingunum um mataræði?

Því miður er það svo að mörgum reynist erfitt að ná að fylgja ráðleggingum. Samkvæmt landskönnun á mataræði Íslendinga sem var framkvæmd árin 2019-2021 var aðeins lítill hluti (2%) sem borðaði fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag. Ungt fólk (18-39 ára) var síður að borða heilkornabrauð og fisk og drakk meira af gosdrykkjum og orkudrykkjum en eldri þátttakendur. Ástæður fyrir verra mataræði geta verið fjölmargar, eins og lélegri fjárhagur, tímaskortur, lítið úrval af hollum valkostum, misgóð hæfni til að matreiða og svo mætti lengi telja. Einnig eru markaðsöflin stór þáttur í þessu samhengi. Börn og ungmenni eru viðkvæmari fyrir auglýsingum en fullorðnir þar sem þau hafa ekki sömu hæfni til að meta á gagnrýninn hátt markaðsskilaboð. Talið er að í sumum löndum sjái börn allt að 30 þúsund auglýsingar um matvæli á ári sem er gríðarlega mikið. Í nýlegri könnun á Íslandi á vegum Fjölmiðlanefndar kom í ljós að um helmingi fleiri unglingsstúlkur en drengir sáu auglýsingar um megrunarvörur og að um helmingur unglinga sáu auglýsingar um vörur sem eiga að auka vöðva.

Í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hefur nú í Bretlandi verið lagt bann við auglýsingum á óhollari matvælum og drykkjum í línulegri dagskrá fyrir klukkan níu á kvöldin og á þetta bann að taka gildi í október á þessu ári. Ekki má heldur beina þessum auglýsingum að börnum undir 16 ára aldri á netmiðlum, né gefa þeim slíkar vörur. Talið er að þetta bann muni hafa veruleg jákvæð áhrif á heilsu barna og ungmenna.

Það er mikilvægt að skoða þessi auglýsinga- og markaðsmál líka á Íslandi. Samhliða þurfum við að vera vakandi fyrir ýmsum sóknarfærum til að miðla góðum upplýsingum til ungs fólks. Þar má nefna í gegnum skóla, þar sem þau eiga líka að vera laus við óhollar matvörur og drykki. Þá er einnig mikilvægt að hafa góðan tíma og getu til að sinna fræðslu og upplýsingagjöf til ungra fjölskyldna í heilsugæslu, til dæmis í gegnum mæðravernd og ung- og smábarnavernd. Þá mætti skoða hvernig matvæli og drykkir eru seldir í íþróttamannvirkjum og hvaða skilaboð börn og ungmenni fá í gegnum íþrótta- og tómstundastarf.

Hlutur fjölmiðla í miðlun upplýsinga

Það er því miður raunveruleiki okkar í dag að fjölmiðlaumfjöllun snýr oft að fámennum hópi sem er á sitthvorum jaðrinum í afstöðu til mataræðis eða annarra þátta. Það þarf hins vegar að fara varlega í að hlusta á einstaklingsfrásagnir af mataræði sem er langt utan ráðlegginga og yfirfæra yfir á sjálfan sig. Það getur haft neikvæðar afleiðingar síðar á ævinni. Flestir eru staðsettir þarna á milli öfganna og ekki síður mikilvægt að flytja fréttir af þessum þögla meirihluta. Það má ekki gleyma því að í nýjum ráðleggingum um mataræði kemur fram að þrátt fyrir yfirgripsmikla yfirferð á nýlegum rannsóknum er hér ekki um ný skilaboð að ræða, þó vissulega hafi aukist áherslan í mikilvægi fæðutegunda úr jurtaríkinu. Einnig er mælt með að borða fisk og nota hóflega af fituminni mjólkurvörum og lítilli neyslu á rauðu kjöti. Mælt er með að velja frekar hvítt kjöt. Takmarka ætti sérstaklega unnar kjötvörur í mataræðinu vegna aukinnar hættu á krabbameini í ristil og endaþarmi. Ef einhver kýs að fara ekki eftir ráðleggingunum um mataræði þá er það auðvitað sjálfsagt mál. Ekki er um að ræða reglur sem öllum ber að fara eftir. Hins vegar megum við samt ekki gleyma þeim lýðheilsusjónarmiðum stjórnvalda sem eru að ef við hnikum öll matarvenjum okkar í átt að ráðleggingum um mataræði þá getum við minnkað sjúkdómsbyrði og náð stórum heilsufarsárangri fyrir heila þjóð.

Höfundar voru meðlimir í fagráði sem kom að gerð nýju ráðlegginganna um mataræði og næringarefni. Óla Kallý er fagstjóri næringarsviðs Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og næringarfræðingur á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Jóhanna er verkefnisstjóri næringar hjá embætti landlæknis og lektor við miðstöð í lýðheilsuvísindum hjá Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×