Innlent

Lög­reglu­maður dæmdur fyrir að beita kylfu við hand­töku

Lovísa Arnardóttir skrifar
Atvikið átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur.
Atvikið átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur. Vísir

Lögreglumaðurinn þarf að greiða 300 þúsund króna sekt og 200 þúsund í miskabætur til manns fyrir brot í opinberu starfi og líkamsárás. Lögreglumaðurinn beitti kylfu við handtöku þegar ekki þótti nauðsyn til. 

Lögreglumaðurinn sló mann sem hann handtók fjórum sinnum með kylfu í lærið við handtöku án þess að það hefði verið brýn nauðsyn til. Í dómi kemur fram að lögreglumaðurinn hafi beitt kylfunni eftir að hafa beitt piparúða ítrekað og náð að yfirbuga manninn. Fleiri lögreglumenn hafi auk þess verið á leið á vettvang og því ólíklegt að lögreglumanninum hefði stafað hætta af manninum. 

Við þær aðstæður sé ekki hægt að telja að það hafi verið brýn nauðsyn að slá manninn með kylfunni. Landsréttur fellst því á að lögreglumaðurinn hafi farið offari hvað varðar notkun kylfunnar og ekki gætt lögmætra aðferða við handtöku mannsins.

Í dómi kemur fram að lögreglumaðurinn hafi þó ekki verið talinn hafa farið offari við handtökuna þegar hann beitti piparúða eða þegar hann ýtti fæti sínum í hnésbót mannsins.

Við ákvörðun refsingarinnar var horft til þess að framganga lögreglumannsins olli manninum ekki líkamlegu tjóni og til þess að lögreglumaðurinn hafði ekki einbeittan brotavilja til þess. Lögreglumanninum hafi ekki gengið annað til verks en að yfirbuga manninn við handtöku.

Lögreglumaðurinn handtók manninn í kjölfar þess að hann tók þátt í slagsmálum fyrir utan skemmtistaðinn LÚX í maí 2023. Fram kemur í dómi að lögreglumaðurinn hafi ítrekað gefið manninum fyrirmæli og er tekið fram að ekki sé umdeilt að þörf hafi verið á handtöku, það sé aðeins umdeilt hvernig hún fór fram. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×