Innlent

Ballið búið í Blá­fjöllum í vetur

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það verður ekkert skíðafæri í Bláfjöllum um páskana eða það sem eftir er veturs. 
Það verður ekkert skíðafæri í Bláfjöllum um páskana eða það sem eftir er veturs.  Vísir/Einar

Skíðavertíðinni í Bláfjöllum er lokið í vetur. Í tilkynningu frá skíðasvæðinu kemur fram að vegna þess að ekkert snjóaði um helgina séu allar skíðaleiðir í sundur á einum eða fleiri stöðum, ásamt lyftusporum. Það er vegna hlýindakafla í lok mars og byrjun apríl.

„Það er því ljóst að páskarnir eru ekki inni í ár og því er þetta niðurstaðan. Þetta var veturinn sem eiginlega aldrei kom,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að veturinn hafi verið sá fjórði aðsóknarmesti þrátt fyrir að aðeins hafi verið opið í 36 daga. Samkvæmt hliðatalningu komu 78.166 gestir í lyftur og á skíðagöngusvæði komu 2.079 gestir.

Snjóframleiðsluvélin sannaði gildi sitt annað árið í röð. Vísir/Arnar

Snjóframleiðsla hófst síðasta vetur í Bláfjöllum og kemur fram í tilkynningunni að fyrstu 12 til 15 dagarnir í opnun í vetur hafi verið algjörlega í boði snjóframleiðsluvélarinnar.

„Annað árið í röð er hún að sanna gildi sitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×