Fótbolti

Fyrsta deildar­tap PSG

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Khvicha Kvaratskhelia og félagar áttu engin svör.
Khvicha Kvaratskhelia og félagar áttu engin svör. Xavier Laine/Getty Images

París Saint-Germain mátti þola 3-1 tap á heimavelli gegn Nice í efstu deild franska fótboltans. Liðið mætir Arsenal í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn kemur.

Þar sem enn er nokkuð langt í leikinn gegn Arsenal þá stillti Luis Enrique upp sínu sterkasta liði, eða svo gott sem. Það má hins vegar áætla að leikmenn PSG hafi verið með hugann við leikinn eftir helgi þar sem þeir gátu lítið sem ekkert í kvöld.

Morgan Sanson, sem átti vægast sagt óeftirminnilegt tímabil frá 2021 til 2023 með Aston Villa kom gestunum frá Nice yfir en spænski landsliðsmaðurinn Fabián Ruiz svaraði skömmu síðar fyrir PSG eftir undirbúning Ousmane Dembélé.

Staðan var 1-1 þegar fyrri hálfleik lauk en í þeim síðari voru gestirnir talsvert betri aðilinn. Sanson kom Nice yfir á nýjan leik strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. Það var svo Youssouf Ndayishimiye sem gulltryggði sigurinn með þriðja marki Nice á 70. mínútu, lokatölur 1-3.

Parísarliðið er þegar orðið Frakklandsmeistari en draumar liðsins um að fara taplaust í gegnum tímabilið eru úr sögunni. Nice er í 4. sæti með 54 stig, stigi minna en Marseille í 2. sætinu sem hefur leikið leik meira. PSG er með 78 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×