Fótbolti

Glódís skilur á­hyggjur Steina: „Verið gríðar­lega sárt og erfitt“

Aron Guðmundsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu Glódísar við upphaf síðasta landsliðsverkefnis. Glódís hefur verið að glíma við meiðsli en er á góðri leið.
Þorsteinn Halldórsson lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu Glódísar við upphaf síðasta landsliðsverkefnis. Glódís hefur verið að glíma við meiðsli en er á góðri leið. Getty/Alex Nicodim

Ís­lenski lands­liðs­fyrir­liðinn Glódís Perla Viggós­dóttir, sýnir áhyggjum lands­liðsþjálfarans varðandi stöðu hennar vegna meiðsla og mögu­legri þátt­töku á EM í Sviss skilning. Sjálf hefur hún ekki áhyggjur og er á góðri leið.

Glódís spilaði rúman stundar­fjórðung með Bayern Munchen gegn Frei­burg á dögunum og skoraði markið sem inn­siglaði meistara­titilinn í þýsku deildinni. Hún er klár í að byrja bikarúr­slita­leik gegn Wer­der Bremen í dag en hefur þurft að passa afar vel upp á sig undan­farnar vikur.

Á blaða­manna­fundi fyrir leik Ís­lands gegn Noregi í síðasta lands­leikja­glugga sem Glódís missti af var lands­liðsþjálfarinn, Þor­steinn Halldórs­son, spurður að því hvort hann hefði áhyggjur af stöðu Glódísar og mögu­legri þátt­töku hennar á komandi Evrópumóti lands­liða í Sviss í sumar. Svar Þor­steins var á þessa leið:

Ég hef áhyggjur af þessu en auðvitað verður maður að vera bjartsýnn en raunsætt getur klár­lega komið til þess að hún spili ekki á EM en við verðum að vona það besta og vonandi klárar Bayern þessa helvítis deild sem fyrst.

Glódís skilur áhyggjur Þor­steins en er sjálf bjartsýn.

„Eitt af því sem ég hef lært með því að ganga í gegnum þetta er að vera ekki að eyða of miklum pælingum í hluti sem ég get ekki stjórnað. Þetta er eitt af því. Ég hef þurft að taka þetta dag frá degi og í rauninni hefur endur­hæfingin mín verið þannig að ég mæti á morgnanna og við sjúkraþjálfarinn minn tökum stöðuna, sjáum hvað ég get gert og hvað ekki. Ég hef því aldrei vitað neina áætlun fram í tímann þannig lagað.“

„Eins og er hef ég engar áhyggjur. Auðvitað skil ég samt hvað hann er að segja af því að þetta eru álags­meiðsl. Maður veit ekki hvort þetta geti komið allt í einu aftur eða hvernig það verður. Ég er á góðri leið núna, tek þetta dag frá degi. Það er þannig sem mér finnst best að takast á við þetta. Ef það heldur áfram að ganga eins vel og það hefur gengið síðustu daga þá hef ég ekki miklar áhyggjur eins og er alla­vegana.“

Var ákveðið áfall

Glódís hefur í raun verið að feta ótroðnar slóðir hvað sig varðar vegna þess að hún hefur verið það lánsöm í gegnum sinn feril að haldast nær meiðsla­laus og til marks um það hafði hún ekki misst af lands­liðs­verk­efni frá því að hún kom fyrst inn í lands­liðið árið 2012.

„Þetta hefur verið gríðar­lega skrýtið. Við höfum grínast með það, ég og sjúkraþjálfarar Bayern, að þeir þekktu mig ekki neitt áður en núna þekkja þeir mig gríðar­lega vel því ég er hjá þeim öllum stundum og í ein­hvern veginn allt öðru­vísi hlut­verki.

Álags­meiðsl eins og beinmar í hné eru ekki auðveld viður­eignar.

„Þetta var ákveðið áfall og ég held ég hafi ekki verið til­búinn í að takast á við það því ég reyndi að spila í gegnum meiðslin og verkinn í nánast mánuð áður en ég horfðist í augu við að það væri ekki hægt að halda svona áfram. Það var mjög erfitt að sætta sig við það og gríðar­lega erfitt að geta ekki verið með lands­liðinu í síðasta verk­efni. Ég hafði aldrei misst af lands­liðs­verk­efni og það var ótrú­lega sárt að geta ekki verið með og þurfa að horfa á þetta allt saman í sjón­varpinu.

Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði íslenska landsliðsinsVísir/Hulda Margrét

„Manni leið eins og þetta væri ekki að gerast í al­vörunni, að þetta væri ekki raun­veru­leikinn. Sama með leikina með Bayern þegar að ég hef þurft að vera heima og horfa á þá í sjón­varpinu. Það hefur verið gríðar­lega sárt og erfitt. Maður hefur þurft að finna gleðina í ein­hverju öðru og takast á við þetta verk­efni sem mér var gefið. Af því að þetta eru álags­meiðsl þá eru þau kannski að gera vart um sig í ljósi þess að ég hef verið mjög mikið að spila og hef verið gríðar­lega heppin hingað til með allt annað. Þetta var kannski líkaminn að segja mér að ég gæti ekki gert það enda­laust. Þetta er búinn að vera gríðar­lega erfiður tími og ég vona að ég sé komin í gegnum erfiðasta tímann núna og er mjög bjartsýn fyrir fram­haldinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×