Skoðun

1. maí er líka fyrir fatlað fólk!

Geirdís Hanna Kristjánsdóttir skrifar

Slagorð ÖBÍ fyrir 1.maí í ár er „Sköpum störf við hæfi“. En hvað þýðir það og hvað eru störf við hæfi?

Jú það þýðir að fólk með fötlun er allskonar, með margskonar skerðingar, bæði andlegar og líkamlegar, allskonar menntun og reynslu, og því þarf að skapa fjölbreytt störf til að mæta þessum hóp þar sem hann er staddur.

Í þessum hóp er fólk með allskyns menntun, allt frá því að hafa grunnskólapróf og upp í að hafa jafnvel nokkrar háskólagráður, og allt þar á milli.

Svo það hlýtur að segja sig sjálft að það er ekki hægt að senda alla þessa einstaklinga bara í einhver störf og jafnvel eingöngu láglaunastörf. Það er ekki hvati til atvinnuþátttöku.

Eflaust geta einhverjir í hópnum unnið í hlutastarfi við ræstingar, en það er afskaplega fámennur hópur.

En eru þessi störf til sem stjórnvöld vilja ýta fólki útí og af örorku?

Samkvæmt því sem ég hef séð, þegar ég skoða auglýsingar frá ráðningafyrirtækjum, þá er afskaplega fátæklegt um hlutastörf. Og ef þau eru til er yfirleitt um 50-80% starfshlutfall að ræða, sem mun henta þeim ágætlega sem fara inn á það sem kallast „hlutaörorka“ í nýju almannatryggingakerfi sem tekur gildi 1.september nk. En hvað með alla þá sem einungis hafa heilsu til að sinna lægra en 50% starfshlutfalli? Hvað er í boði fyrir það fólk?

Ríki og sveitarfélög hafa ekki skapað gott fordæmi þegar snýr að hlutastörfum eða að ráða fatlað fólk til starfa hjá sér. Stjórnvöld verða að vera fremst í flokki þegar kemur að því að bjóða fólki með fötlun hlutastörf við hæfi.

Megináhersla hefur verið lögð á það í gegnum tíðina að til séu verndaðir vinnustaðir, sem er gott og blessað. En það hlutfall fatlaðs fólks sem nýtir sér það úrræði er mjög lítill hluti af hópnum. Hvað hefur verið gert fyrir alla hina? Stutta svarið: Ekkert.

Sá hópur hefur ýmist

a) einangrast heima, því lítið er í boði fyrir þennan hóp til að halda sér í virkni

b) þjösnast áfram á vinnumarkaði á kostnað heilsunnar og með tilheyrandi skerðingum á lífeyrisgreiðslum sínum og oft á tíðum ofgreiðslukröfum

c) farið út í sjálfstæðan rekstur þar sem það ræður hvernig tíma þess og orku er varið, en þetta er mjög fámennur hópur

Við erum öll mikilvæg og getum öll lagt eitthvað til samfélagsins, bara ekki 100%, og það er allt í lagi. Við þurfum ekki öll að vera eins, ekkert frekar en öll formin í þroskaleikföngum barnanna. Því mikið ofboðslega væri heimurinn og lífið einsleitt, litlaust og leiðinlegt ef við værum öll nákvæmlega eins.

Ég skora á stjórnvöld að ganga frammi með góðu fordæmi þegar kemur að hlutastörfum fyrir fatlað fólk. Og eins má auka aðgengi að allskyns virkniúrræðum, en því hefur verið ábótavant fyrir fólk sem er með fullt örorkumat.

Höfundur er formaður Kjarahóps ÖBÍ.




Skoðun

Sjá meira


×