Skoðun

Sósíal­istar á vaktinni í átta ár

Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar

Sósíalistaflokkur Íslands var stofnaður fyrir átta árum, á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí 2017. Að loknum stofnfundi gekk ég út í rigninguna með grunnstefnuna í hendi sem inniheldur skýr orð um auðvaldið sem andstæðing og að Sósíalistaflokkurinn leggi áherslu á það sem sameinar fólkið í landinu; óréttlætið sem það mætir og viljann til að losna undan því.

Óréttlætið birtist í því að börn fara svöng að sofa sökum fátæktar, að kvótakóngar sópa til sín auðinn af sameiginlegri auðlind, að hagkvæmara er að fjárfesta í húsnæði en hlutabréfum, að ásættanlegt þyki að leigja út kolakjallara sem híbýli. Óréttlætið birtist í brotalömum heilbrigðisþjónustunnar, í viðvarandi vanfjármögnun. Óréttlætið er allt umlykjandi, hjá stjórnvöldum sem segja að þeir ríkustu eigi að greiða núll af fjármagnstekjum sínum til nærsamfélagsins á meðan öryrkjum er gert að lifa á lofti. Óréttlætið birtist í biðlistum eftir grunnþjónustu, biðlistum sem bitna á þeim sem bíða og búa til fleiri biðlista annars staðar í kerfinu. Það kostar að vera fátækur, það kostar að eiga við afleiðingarnar, það kostar þegar þú átt ekki fyrir því að vera til. Óréttlætið er staðreynd, fjötrar sem þarf að brjóta.

Til að byggja upp gott samfélag þarf að laga það sem er bilað. Sósíalistar vita að til þess þarf að hlusta á fólkið með reynsluna. Á þeim átta árum sem Sósíalistaflokkur Íslands hefur verið til, hafa sósíalistar verið í borgarstjórn í tæp sjö ár. Fyrst í minnihluta með einn kjörinn borgarfulltrúa og síðan hafa sósíalistar bætt við sig og náð inn tveimur kjörnum fulltrúum. Sósíalistar hafa farið úr því að vera í minnihluta yfir í að vera skyndilega í meirihluta. Í viðræðum sem leiddu til þess samstarfs lögðu sósíalistar í borgarstjórn m.a. áherslu á að formgera reglulegt samtal við verkalýðshreyfinguna á vettvangi borgarinnar.

Þegar 1. maí er liðinn mun ég mæta til starfa og eiga samtal við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur sem er á dagskrá 2. maí. Slíkt er liður í því að útfæra þetta reglulega samtal við verkalýðshreyfinguna. Hlakka ég til sem og til næstu ára með Sósíalistaflokknum, sama hvernig viðrar, stöndum við föst á því að útrýma þarf óréttlætinu.

Baráttukveðjur á baráttudegi verkalýðsins og hamingjuóskir á afmælisdegi Sósíalistahreyfingarinnar.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum og borgarfulltrúi.




Skoðun

Sjá meira


×