Handbolti

Læri­sveinar Arnórs laumuðu sér upp fyrir lið Guð­mundar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnór Atlason og Guðmundur Þ. Guðmundsson eru í baráttu um sæti í undanúrslitum.
Arnór Atlason og Guðmundur Þ. Guðmundsson eru í baráttu um sæti í undanúrslitum.

TTH Holstebro, liðið sem Arnór Atlason þjálfar, vann 35-32 gegn Bjerringbro-Silkeborg í þriðju umferð riðlakeppninnar sem veitir sæti í undanúrslitum dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Sigurinn skaut TTH Holstebro upp í annað sætið, upp fyrir Fredericia, liðið sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar.

Fredericia tapaði fyrr í dag gegn GOG, sem er með fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins. Efstu tvö liðin fara í undanúrslit og baráttan um annað sætið er milli TTH Holstebro og Fredericia. Bjerringbro-Silkeborg er stigalaust í neðsta sætinu.

Liðin fjögur mætast tvívegis innbyrðis, alls hafa því þrjár umferðir af sex verið spilaðar.

Í hinum riðlinum er Aalborg í efsta sæti og Mors-Thy í öðru sæti. Skjern og SAH þar á eftir.

Í fallbarátturiðlinum er Ribe-Esbjerg búið að bjarga sér, eftir 31-21 stórsigur gegn Grindste fyrr í dag. Ágúst Elí Björgvinsson varði ellefu skot fyrir sigurliðið. Elvar skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×