Viðskipti erlent

Buffet hættir sem for­stjóri við lok árs

Lovísa Arnardóttir skrifar
Buffet sagði börnin sín þau einu sem vissu af ákvörðun hans að stíga til hliðar við lok árs.
Buffet sagði börnin sín þau einu sem vissu af ákvörðun hans að stíga til hliðar við lok árs. Vísir/AP

Warren Buffet hefur tilkynnt að hann muni láta af störfum sem forstjóri fyrirtækis síns, Berkshire Hathaway, við lok þessa árs. Buffet tilkynnti á ársfundi fyrirtækisins að Greg Abel myndi taka við af honum. Buffet er fjórði ríkasti maður heims.

„Ég held að það sé tímabært að Greg verði forstjóri fyrirtækisins,“ sagði Buffet á fundinum en hann er sjálfur orðinn 94 ára gamall. Hann sagði á fundinum börnin sín þau einu sem hafi vitað af því að hann ætlaði að hætta. Abel sjálfur virtist á fundinum ekki vita af því að hann ætti að taka við.

Í frétt BBC um málið kemur fram að Buffet sé ein afkastamesti og árangursríkasti fjárfestir í heimi. Hann byggði fyrirtækið sjálfur upp og er áætlað að það sé virði um 870 milljarða breskra punda.

Í fréttinni segir jafnframt að Buffet hafi handvalið Abel sem arftaka sinn fyrir fjórum árum en ekki gefið neitt upp um það á þeim tíma hvenær hann myndi hætta.

Berkshire Hathaway á um sextíu fyrirtæki eins og tryggingafyrirtækið Geico, Duracell batterí og veitingahúsakeðjuna Dairy Queen. Þá á fyrirtækið einnig hlut í Apple, Coca Cola, Bank of America, American Express og fleiri fyrirtækjum.

Buffet var í síðasta mánuði á vef Bloomberg sagður fjórði ríkasti maður heims og er virði hans talið nema 154 milljörðum Bandaríkjadala. Hann hefur síðustu ár gefið milljarða í góðgerðatarf. Hann þénaði fyrst pening sex ára gamall, keypti sín fyrstu hlutabréf ellefu ára gamall og skilaði fyrsta skattframtalinu sínu 13 ára gamall.

Þrátt fyrir að vera einn ríkasti maður heims hefur Buffet búið í sama húsinu í Omaha í meira en 65 ár.

Tilkynningin kemur stuttu eftir að Buffet gagnrýndi tollaákvarðanir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Buffet sagði að Bandaríkin ættu ekki að nota „viðskipti sem vopn“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×