Handbolti

Al­dís Ásta frá­bær í fyrsta úr­slita­leiknum um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aldís Ásta Heimisdóttir hefur átt frábært tímabil og spilaði vel í kvöld.
Aldís Ásta Heimisdóttir hefur átt frábært tímabil og spilaði vel í kvöld. @skarahf

Aldís Ásta Heimisdóttir og félagar hennar í Skara byrjuðu úrslitaeinvígið um sænska meistaratitilinn vel í kvöld. Akureyrarmærin átti líka mjög góðan leik en stuttu fyrir leik var það tilkynnt að hún verður í eitt tímabil í viðbót hjá Skara.

Skara vann eins marks sigur á Savehöf í fyrsta úrslitaleiknum en leikurinn fór fram á heimavelli deildarmeistara Skara.

Skara vann leikinn 26-25 eftir að hafa verið 13-9 yfir í hálfleik. Savehöf skoraði tvö síðustu mörkin í leiknum en Aldís og félagar héldu þetta út.

Skara liðið er þar með búið að vinna sjö fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni en liðið vann einvígi sín í átta liða úrslitum og undanúrslitum bæði 3-0.

Aldís Ásta var næstmarkahæst í sínu liði með sex mörk en Melanie Felber var markahæst með níu mörk.

Aldís gaf einnig fimm stoðsendingar og kom því með beinum hætti að ellefu mörkum. Hún nýtti sex af átta skotum sínum og ekkert marka hennar kom úr víti.

Fyrir leik var það gefið út að Aldís Ásta ætlar að taka eitt tímabil í viðbót með Skara liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×