Körfubolti

Ægir Þór: Við vorum heilt yfir miklu betri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson var einni stoðsendingu frá þrennunni í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson var einni stoðsendingu frá þrennunni í kvöld. Vísir/Anton

Ægir Þór Steinarsson átti frábæran leik með Stjörnunni á móti Tindastól í kvöld í fyrsta leik lokaúrslitanna. Það dugði þó ekki til því Stjörnumenn misstu niður fimm stiga forkost á síðustu fjörutíu sekúndum leiksins og eru lentir 0-1 undir á móti Stólunum.

„Við vorum komnir með fimm stiga forystu og fórum kannski aðeins of hratt í sóknarleikinn eftir að þeir settu niður þrist og komust yfir,“ sagði Ægir við Andra Már Eggertsson eftir leikinn.

„Við hefðum átt að vera með aðeins meiri stjórn á hlutunum í lokin sem hefði þá líklegast klárað þetta. Við vorum aðeins of fljótir á okkur. Þeir settur bara niður stór skot og þetta datt með þeim,“ sagði Ægir.

Hann átti frábæran leik og skoraði 24 stig, tók 12 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.

„Ég var að reyna að vera agressífur og finna færi fyrir mig og færi fyrir aðra. Mér fannst við vera með gott jafnvægi í leiknum okkar gegnum allan leikinn. Við vorum heilt yfir miklu betri en við verðum bara að klára þetta næst,“ sagði Ægir.

„Það kom eitthvað run frá þeim og við náðum að svara því. Við héldum það ekki út síðustu fjörutíu sekúndurnar. Það var ekkert meira en það því þú getur alltaf búist við því að það verði einhver geðveiki hér í Síkinu,“ sagði Ægir.

„Við njótum góðs að því í úrslitakeppninni að við höfum verið að lenda á veggjum. Þetta verður ekki fyrsti eða síðasti veggurinn í lífinu sem við lendum á. Við erum tilbúnir að fara aftur í Ásgarð og ná í næsta sigur,“ sagði Ægir.

„Þetta er bara fyrsti leikurinn í seríunni og ég er bara mjög vongóður um að við klárum þetta,“ sagði Ægir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×