Barcelona með níu fingur á titlinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Börsungar fagna.
Börsungar fagna. EPA-EFE/Alberto Estevez

Barcelona vann magnaðan 4-3 sigur á Real Madríd eftir að lenda 0-2 undir þegar liðin mættust í La Liga, efstu deild spænska fótboltans. Með sigrinum eru Börsungar komnir með níu fingur á Spánarmeistaratitilinn sem Real vann á síðustu leiktíð.

Fyrir leik var ljóst að gestirnir frá Madríd þyrftu að vinna til að eygja möguleika á að verja titil sinn. Barcelona hafði einnig haft betur í framlengdum leik þegar liðin mættust í úrslitum spænsku bikarkeppninnar sem og Börsungar unnu fyrri deildarleik liðanna 4-0. Það var því úr nægu að velja til að hvetja Madríd til dáða og byrjaði liðið frábærlega.

Kylian Mbappé kom Real yfir úr vítaspyrnu strax á 5. mínútu. Rétt rúmum tíu mínútum síðar tvöfaldaði Mbappé forystuna eftir undirbúning Vinícius Júnior og gestirnir í sjöunda himni. Sú gleði entist þó ekki lengi og minnkaði heimaliðið muninn aðeins fimm mínútum síðar.

Kominn með 27 deildarmörk.EPA-EFE/Siu Wu

Eric Garcia skoraði þá eftir sendingu Ferrán Torres en sá síðarnefndi átti heldur betur eftir að setja mark sitt á leikinn. Torres lagði einnig upp jöfnunarmark Börsunga sem hinn gríðarlega efnilegi Lamine Yamal skoraði á 32. mínútu.

Það mark sló gestina rækilega út af laginu og á 34. mínútu hafði Raphinha komið Barcelona í 3-2 eftir undirbúning frá Pedri. Raphinha bætti svo við öðru marki sínu og fjórða marki Börsunga á lokamínútu fyrri hálfleiks. Aftur var það Torres sem lagði upp.

Raphinha hefur verið magnaður.EPA-EFE/Siu Wu

Mbappé fullkomnaði þrennu sína þegar 20 mínútur lifðu leiks en nær komust gestirnir ekki og Barcelona vann frækinn 4-3 sigur. Raunar skoruðu heimamenn fimmta markið í uppbótartíma en markið var dæmt af þar sem leikmaður Börsunga handlék knöttinn í aðdragandanum.

Sigurinn fer langleiðina með að tryggja Barcelona spænska meistaratitilinn enda munurinn á liðunum nú sjö stig þegar aðeins níu eru eftir í pottinum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira