Fótbolti

Svein­dís Jane skoraði og lagði upp í kveðju­leiknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindís Jane hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Wolfsburg.
Sveindís Jane hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Wolfsburg. getty/Inaki Esnaola

Lokaumferð efstu deildar kvenna í Þýskalandi fór fram í dag. Þar voru þónokkrar íslenskar landsliðskonur í aðalhlutverki.

Wolfsburg lagði Bayer Leverkusen 3-1 eftir að komast 3-0 yfir á fyrsta stundarfjórðungi leiksins. Sveindís Jane lagði upp fyrsta mark Wolfsburg á 4. mínútu og tvöfaldaði forystuna fjórum mínútum síðar.

Þegar sléttur stundarfjórðungur var liðinn bætti heimaliðið við þriðja markinu og staðan 3-0 í hálfleik. Þegar tæpur stundarfjórðungur lifði leiks lagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir upp sárabótarmark fyrir gestina.

Lokatölur 3-1 og segja má að Sveindís Jane segi skilið við Wolfsburg með stæl. Hún er á förum frá félaginu og hefur meðal annars verið orðuð við Manchester United. Karólína Lea er einnig á förum frá Leverkusen en hún hefur verið á láni hjá liðinu frá Þýskalandsmeisturum Bayern München. Báðar spiluðu allan leikinn.

Fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir stóð vaktina í miðri vörn Þýskalandsmeistaranna þegar liðið vann þægilegan 3-0 sigur á Essen. Hún var tekin af velli þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Þá lék hin tvítuga Emilía Kiær Ásgeirsdóttir 80 mínútur þegar RB Leipzig tapaði 0-2 á heimavelli gegn Eintracht Frankfurt.

Bayern stendur uppi sem Þýskalandsmeistari með 59 stig að loknum 22 leikjum. Wolfsburg kemur þar á eftir með 51 stig, Leverkusen er í 4. sæti með 43 stig og Leipzig í 8. sæti með 27 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×