Skoðun

Sveitar­fé­lög gegna lykil­hlut­verki í vist­vænni mann­virkja­gerð

Guðrún Lilja Kristinsdóttir og Bergþóra Góa Kvaran skrifa

Mannvirkjageirinn ber ábyrgð á um 40% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu samkvæmt sameinuðu þjóðunum ásamt því að mikil efnanotkun fylgir framkvæmdum. Það er ljóst að aðgerðir innan byggingariðnaðarins sem snúa að umhverfismálum eru mikilvægar. Á síðustu árum hafa þó framfarir orðið bæði þar sem umhverfisvottuðum verkefnum hefur fjölgað sem og breytingar í regluverkinu hafa átt sér stað. Það er hins vegar ljóst að betur má ef duga skal og ekki má sofna á verðinum. En hvar liggur ábyrgðin og hvar er hægt að skapa hvata til umbreytinga?

Sveitarfélög eiga eitt öflugasta tækið þegar kemur að því að draga úr umhverfisáhrifum bygginga og búa því yfir tækifæri til að móta sjálfbæra framtíð. Þau stýra skipulagi, setja leikreglurnar og geta valið að leiða með góðu fordæmi. Hvort sem það er með vistvænum áherslum í eigin framkvæmdum eða með því að hvetja verktaka og hönnuði til að velja umhverfisvænar lausnir.

Mikilvægt að kalla fram breytingar

Ef við viljum sjá raunverulegar og hraðar breytingar eru tækifærin mörg á skrifstofum sveitarfélaganna. Þar liggur valdið til að skapa hvata fyrir betri byggingar og möguleiki til að skapa tækifæri fyrir alla aðila í ferlinu – hönnuði, verktaka og verkkaupa – til að velja umhverfisvænar leiðir. En hvatar þurfa að vera skýrir, og kröfurnar markvissar svo sjálfbærar lausnir verði ekki eingöngu kostur, heldur augljósasti valkosturinn.

Það eru jákvæð teikn á lofti, mörg sveitarfélög eru farin að nýta verkfæri eins og umhverfisvottanir, eins og Svaninn og BREEAM sem hafa verið leiðandi í byggingariðnaðinum hér á landi. Umhverfismerki á borð við Svaninn, þar sem hægt er að votta ýmisar vörur og þjónustu, eru leiðbeinandi fyrir neytendur og auðvelda valið. Svansmerkið nýtist til að mynda bæði við innkaup á vörum og þjónustu í rekstri sveitarfélaga og við byggingarframkvæmdir. Umhverfismerki veita skýran ramma fyrir þau sem vilja leggja áherslu á umhverfisvænar lausnir og gæði – hvort sem um ræðir nýbyggingar eða endurbætur.

Önnur verkfæri sem eru í boði eru lífsferilsgreiningar (LCA) sem sveitarfélög og fagfólk geta einnig unnið markvisst með til að minnka kolefnisspor mannvirkja, m.a. með því að velja efni og lausnir sem hafa minni heildaráhrif á umhverfið yfir allan líftíma byggingarinnar. Þá skiptir einnig miklu máli að horfa til hringrásarhagkerfisins, þar sem efni eru endurnýtt, líftími bygginga lengdur og úrgangur lágmarkaður með snjöllum hönnunar- og framkvæmdalausnum.

Hvað er hægt að gera?

Hafnarfjarðarbær er gott dæmi um sveitarfélag sem hefur sýnt frumkvæði á þessu sviði en sveitarfélagið býður upp á afslætti af gatnagerðar- og lóðagjöldum fyrir þau sem byggja umhverfisvottaðar byggingar. Með þessu styður bærinn verktaka og aðra í að velja sjálfbærar lausnir í framkvæmdum sem skila sér í gæðum byggingarverkefna þar sem heilsan er í fyrirrúmi og vistvænni hverfum. Þessi fjárhagslegi hvati hefur skilað sér en um fjórðungur allra verkefna sem hafa annað hvort fengið vottun eða eru í Svansvottunarferli eru staðsett í Hafnarfjarðarbæ.

Einnig má sjá að mikill fjöldi verkefna er staðsettur í Reykjavík en sveitarfélagið stóð til að mynda að verkefni sem kallast Grænt húsnæði framtíðarinnar sem stuðlar að vistvænni húsnæðisþróun þar sem kallað er eftir tillögum um vistvænni byggð. Fleiri sveitarfélög hafa einnig tekið af skarið en sveitarfélagið Hornafjörður er nú á lokametrunum með að Svansvotta viðbyggingu við leikskólann Sjónarhól og Reykjanesbær er í Svansvottunarferli með hjúkrunarheimili sem rís í Njarðvík. Þá hafa Kópavogur og Garðabær farið í Svansvottunarferli með sínar eigin framkvæmdir en leikskólinn Urriðaból í Garðabæ hlaut Grænu skófluna árið 2024 sem er viðurkenning fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.

Sveitarfélög hafa öfluga hvata í höndunum ef viljinn er fyrir hendi. Byggingar sem rísa í dag eru byggðar til að endast í a.m.k. 100 ár. Því eiga allar ákvarðanir sem teknar eru í dag eftir að hafa áhrif á byggingarmassann næstu öldina. Því er mikilvægt að hanna byggingar með betri orkunýtni en tíðkast hefur til að sóa ekki auðlindum og hanna sér í hag til dæmis fyrir (orku)óvissu framtíðarinnar.

Það er því mikilvægt að kröfur séu settar á framkvæmdaraðila sem stuðla að betri byggingum fyrir heilsu og umhverfið í framtíðinni. Sveitarfélög gegna þar lykilhlutverki og geta hvatt til grænni lausna m.a. með því að:

  • Setja skýrari umhverfiskröfur í tengslum við skipulagsmál eins og deili- og aðalskipulag og byggingarframkvæmdir t.d. með kröfu um bætta orkunotkun, lægra kolefnisspor o.fl.
  • Veita fjárhagslega hvata, t.d. afslátt af lóðagjöldum og/eða gatnagerðargjöldum.
  • Velja að umhverfisvotta eigin framkvæmdir.
  • Skrifa kröfur sem varða sjálfbærni í eigin útboðsgögn.

Gæði bygginga eru umhverfismál

Gæði bygginga skipta sköpum. Vandaðar og endingargóðar byggingar draga úr þörf á nýbyggingum og viðhaldi, sem og tilheyrandi umhverfisáhrifum og kostnaði. Reglulegt viðhald, markviss rekstur og endurbætur eru lykilatriði þegar kemur að lengri líftíma bygginga og mikilvægt er að hlúa að þeim húsum sem þegar standa. Reykjavíkurborg hefur tekið frumkvæði með því að innleiða Svansvottun í endurbótaverkefni sín. Einnig hægt að Svansvotta rekstur bygginga, sem eykur umhverfisvitund og tryggir betra eftirlit með viðhaldi. Þegar vel er haldið á spilunum stuðla gæði að sjálfbærni – bæði til skamms tíma og til framtíðar. Við þurfum sveitarfélög sem þora að setja kröfur, hugsa til lengri tíma og velja umhverfisvænar lausnir.

Höfundar eru Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins á Íslandi og Bergþóra Góa Kvaran, sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun.




Skoðun

Sjá meira


×