Íslenski boltinn

„Búnir að vera á smá hrak­hólum“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, ekki sáttur
Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, ekki sáttur Vísir/Diego

„Varnarlega spiluðum við gríðarlega vel. Við breyttum og skiptum í 4-4-2 og það var bara mjög erfitt að finna lausnir gegn okkur. Svo áttum við góð færi líka. Ég er bara mjög sáttur við leikinn í heildina,“ segir Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, eftir markalaust jafntefli hans manna við topplið Víkings á Hásteinsvelli í Bestu deild karla í fótbolta síðdegis.

Eyjamenn höfðu tapað fjórum leikjum í röð fyrir leik dagsins og Þorlákur segir gott að sækja stig.

„Þetta var farið að setjast á sálina. Í meistaraflokksbolta er betra að vera ógeðslega lélegur og vinna. Það eru leikir sem við höfum tapað þar sem við höfum verið slakir, en líka leikir sem svíða þar sem við höfum verið betri aðilinn og töpum. Þetta var jafn leikur í dag og ég er hrikalega stoltur af liðinu,“ segir Þorlákur.

Eyjamenn voru að spila sinn fyrsta leik á Hásteinsvelli eftir framkvæmdir við gervigraslögn. Það sé gott að komast loks á heimavöllinn, sérlega eftir TM-mótið síðustu helgi, þar sem nóg hefur verið um að vera á Þórsvelli, sem ÍBV lék á framan af sumri.

„Ég ætla að viðurkenna það að þetta er gott. Við erum búnir að vera á smá hrakhólum síðustu vikur út af þessum mótum sem eru í gangi. Auðvitað eru góðar minningar af Þórsvellinum sem er stórkostlegt vallarstæði. En við erum allir glaðir að vera komnir hingað,“ segir Þorlákur.

ÍBV með 15 stig og fer upp fyrir FH í 9. sæti deildarinnar, þremur stigum frá ÍA og KA sem verma fallsætin tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×