Veður

Spá hita­bylgju í byrjun næstu viku og allt að 29 stigum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þessi ungi drengur skemmti sér í gosbrunninum við Gerðarsafn í Kópavogi í maí þegar veðrið lék við landann.
Þessi ungi drengur skemmti sér í gosbrunninum við Gerðarsafn í Kópavogi í maí þegar veðrið lék við landann. Vísir/Anton Brink

Veðurspár gera ráð fyrir að hlýr loftmassi berist yfir landið í byrjun næstu viku sem leiða muni til hitabylgju. Gangi spárnar eftir gæti hæsti hitinn sem mælist á landinu náð allt að 29 stigum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. 

Þar segir að líklegustu landsvæðin til að hreppa hæsta hitann séu Suðurland og Norðurland-Eystra og meiri líkur séu á háum hita inn til landsins. Hæsti hitinn í væntanlegri hitabylgju yrði á bilinu 28 til 29 stig en ekki sé útilokað að kjöraðstæður myndist á stöku mælistöð og hiti mælist þá hærri. 

„Þar með er svolítill möguleiki á að hoggið verði nærri hæsta hita sem mælst hefur á landinu, en það eru 30.5 stig á Teigarhorni við Berufjörð þann 22. júní 1939 (fyrir rúmum 86 árum),“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að á höfuðborgarsvæðinu séu líkur á að hiti nái tuttugu stigum á mælistöðinni við hús Veðurstofunnar á Bústaðavegi. Til langs tíma litið gerist slíkt einungis þriðja hvert sumar.

„Hins vegar ber að nefna að þegar hlýtt loft leikur um hafið umhverfis landið, þá hafa þokuský tilhneigingu til að myndast. Þessi þokuský geta látið á sér kræla, einkum við sjávarsíðuna og þá haldið hitanum niðri á meðan,“ segir að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×