Erlent

Rússar virðast hafa litlar á­hyggjur af hótunum Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump virðist vera kominn aftur í lið með Evrópu... í bili að minnsta kosti. Hér eru hann og Selenskí með Emmanuel Macron og Keir Starmer þegar útför páfa fór fram í apríl síðastliðnum.
Trump virðist vera kominn aftur í lið með Evrópu... í bili að minnsta kosti. Hér eru hann og Selenskí með Emmanuel Macron og Keir Starmer þegar útför páfa fór fram í apríl síðastliðnum. Getty/Forsetaskrifstofa Úkraínu

Stjórnvöld í Úkraínu fagna mjög ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að selja Úkraínumönnum vopn í gegnum Atlantshafsbandalagsríkin, sem munu greiða fyrir og senda vopnin gegn því að fá nýjar birgðir frá Bandaríkjunum.

„Ég er þakklátur Trump fyrir vilja hans til að styðja við okkur í að vernda þjóð okkar,“ sagði Vólódímír Selenskí í daglegu ávarpi sínu í gærkvöldi. 

Forsetinn sagðist hafa átt góðar viðræður við Keith Kellogg, sendifulltrúa Bandaríkjanna í Úkraínu, og þá hefði hann rætt við bæði Trump og Mark Rutte, framkvæmdastjóra Nató.

Viðbrögð við hótun Trump gagnvart Rússum; að gefa þeim 50 daga til að láta af stríðsrekstrinum ellegar sæta refsiaðgerðum, hafa hins vegar verið lágstemmdari. 

Rússar virðast sjálfir hafa takmarkaðar áhyggjur en Konstantin Kosachev, áhrifamikill rússneskur þingmaður, sagði til að mynda á Telegram að afarkostir Trump væru ekkert annað en „heitt loft“. 

„Margt getur gerst á 50 dögum; á vígvellinum og í huga þeirra sem eru við völd, bæði í Bandaríkjunum og í Nató,“ sagði hann.

Þá benti Yuri Podolyaka, vinsæll hernaðarbloggari, á að Trump ætti það til að sveiflast fram og til baka og skipta um skoðun.

Ef marka má orð Trump síðustu daga virðist hann hins vegar orðinn vel meðvitaður um það að Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir eitt og gerir annað.

„Ég kem heim og segi við forsetafrúna: Veistu, ég talaði við Vladimír í dag. Við áttum dásamlegt samtal,“ sagði Trump í gær. „Og hún segir: Ó, er það? Það var verið að gera árás á aðra borg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×