Íslenski boltinn

KR í mark­manns­leit eftir meiðsli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jamie Brassington, markmannsþjálfari KR, og Óskar Hrafn, þjálfari liðsins, ræða hér saman.
Jamie Brassington, markmannsþjálfari KR, og Óskar Hrafn, þjálfari liðsins, ræða hér saman. Vísir/Ernir

Lið KR í Bestu deild karla í knattspyrnu er í markmannsleit þar sem Sigurpáll Sören Ingólfsson ökklabrotnaði á æfingu nýverið.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari liðsins, staðfesti tíðindin í stuttu viðtali við Fótbolti.net. Hann sagði jafnframt að Sigurpáll Sören væri á leið í aðgerð og yrði frá næstu tvo mánuðina eða svo.

„Í dag erum við með Hauk Loga Tryggvason, 2. flokks markmann, sem hefur verið okkar þriðji markvörður,“ sagði Óskar Hrafn einnig.

Hinn 22 ára gamli Sigurpáll Sören hefur verið varamarkvörður KR í ár sem og lungann af síðasta tímabili. Hans eini leikur á tímabilinu kom í gríðarlega öruggum 11-0 sigri á KÁ í Mjólkurbikarnum.

Franz Sigurjónsson, þrítugur Eyjamaður sem lék 11 leiki með KFG í 2. deildinni á síðustu leiktíð, hefur verið að æfa með KR samkvæmt heimildum Fótbolti.net.

„Við vorum ekki að leita að markmanni, þannig við erum á algjörum byrjunarreit,“ sagði Óskar Hrafn jafnframt um markmannsleit KR-inga. Þá staðfesti hann að einhver af útileikmönnum liðsins þyrfti að setja á sig hanskana á æfingu í vikunni.

KR er sem stendur í 11. sæti Bestu deildar karla með 16 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti. Á laugardaginn kemur tekur liðið á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í Vesturbænum. Það verður fyrsti leikur liðsins á heimavelli í sumar þar sem loks er búið að leggja gervigras á völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×