Erlent

Obama svarar á­sökunum Trump og Gabbard um valdaránstilraun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump og Gabbard hafa sakað Obama um tilraun til valdaráns.
Trump og Gabbard hafa sakað Obama um tilraun til valdaráns. Getty

Skrifstofa Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur sent út yfirlýsingu þar sem hún fordæmir harðlega ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta og undirmanna hans þess efnis að Obama hafi gerst sekur um landráð í kjölfar sigurs Trump í kosningunum 2016.

„Af virðingu við forsetaembættið virðir þessi skrifstofa venjulega ekki þá stöðugu vitleysu og falsupplýsingar sem flæða úr Hvíta húsinu með svörum. En þessar ásakanir eru svo hneykslanlegar að þær kalla á svar. Þær eru fáránlegar og veik tilraun til að glepja,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar eru gerðar alvarlegar athugasemdir við skjal sem Tulsi Gabbard, yfirmaður leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna, gaf út í síðustu viku, þar sem hún sakar Obama og samstarfs menn hans um samsæri þegar þáverandi yfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að Rússar hefðu haft afskipti af forsetakosningunum vestanhafs og freistað þess að aðstoða Trump á kostnað Hillary Clinton.

Gabbard hefur verið gagnrýnd fyrir að þvæla saman ólíkum hlutum í skýrslu sinni til að komast að fyrirfram gefinni niðurstöðu og í yfirlýsingu skrifstofu Obama segir meðal annars að ekkert í henni afsanni þá almennt samþykktu niðurstöðu að Rússar hefðu freistað þess að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna 2016.

Þá er bent á að niðurstöðurnar hefðu verið staðfestar í skýrslu þverpólitískrar þingnefndar árið 2020, sem þá var leidd af Marco Rubio, núverandi utanríkisráðherra.

Trump var spurður út í skýrslu Gabbard og ásakanirnar gegn Obama á blaðamannafundi, þar sem hann sagðist meðal annars sammála Gabbard að hefja þyrfti sakamálarannsókn gegn Obama. Joe Biden varaforseti, James Comey, þáverandi forstjóri Alríkislögreglunnar, og fleiri hefðu einnig komið að málum.

„Það voru líka þeir en leiðtogi gengisins var Obama forseti; Barack Hussein Obama. Hafið þið heyrt um hann?“ sagði Trump. Forsetinn sagði skýrsluna sönnun þess að Obama hefði farið fyrir valdaránstilraun.

„Hann er sekur. Þetta voru landráð. Þetta var allt sem þú getur ímyndað þér. Þeir reyndu að stela kosningunum. Þeir reyndu að þvæla kosningarnar. Þeir gerðu hluti sem enginn hefði getað ímyndað sér.“

Þá hafði Trump eftir Gabbard að þúsundir skjala hvað þetta varðaði yrðu birt á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×