Spán­verjar í úr­slita­leikinn: Bonmatí sýndi af hverju hún er best í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aitana Bonmati fagnar sigurmarki sínu í kvöld en hún kom sterk inn þegar allt stefndi í vítaspyrnukeppni.
Aitana Bonmati fagnar sigurmarki sínu í kvöld en hún kom sterk inn þegar allt stefndi í vítaspyrnukeppni. Getty/Markus Gilliar

Spánverjar eru komnir í úrslitaleik Evrópumóts kvenna í fótbolta í Sviss eftir 1-0 sigur í kvöld í framlengdum undanúrslitaleik á móti Þjóðverjum.

Spánn mætir því Englandi í úrslitaleiknum í Basel á sunnudaginn sem er endurtekning á úrslitaleik HM fyrir tveimur árum.

Allt stefndi í vitaspyrnukeppni í seinni hluta framlengingar þegar besti leikmaður heims sýndi af hverju hún hefur verið kosin best undanfarin tvö ár.

Aitana Bonmatí var ekki búin að vera alltof sannfærandi í þessum leik en þarna sýndi hún snilli sína á úrslitastundu. Útsjónarsemi hennar braut upp leikinn og fann loksins leiðina.

Bonmatí lét boltann fara og bjó sér með því til færi utarlega í teignum. Hún náði síðan föstu skoti á nærstöng og boltinn lá í markinu. Spánn komið yfir og ekki mikill tími fyrir þær þýsku til að svara.

Það fór líka svo að þetta reyndist vera sigurmarkið í leiknum.

Þýska liðið hafði fram að því staðið sig frábærlega á móti svel spilandi spænsku liði sem fann fáar leiðir í gegnum þýsku vörnina.

Það var eins og þær spænsku væru að missa trúna og pirringur væri að taka yfir. Liðið komst lítið áleiðis en liðið var með heimsklassaleikmenn til að búa eitthvað til. Bonmatí steig fram þegar hennar var hvað mest þörf og réði úrslitum.

Þýsku stelpurnar hafa sýnt ótrúlegan baráttuhug og samheldni allt mótið og það var engin breyting á því í kvöld.

Þýska liðið varðist afar vel og ógnaði síðan spænska liðinu alltaf í skeinuhættum skyndisóknum.

Franska liðið fann enga leið manni fleiri nær allan tímann og heimsmeistarar Spánverjar lentu í sömu vandræðum.

Ann-Katrin Berger var siðan vel á verði í þýska markinu þegar þær spænsku náðu loksins skotum á markið.

Spænska liðið endaði fyrri hálfleikinn vel og fékk þá tvö góð færi en Berger varði vel í bæði skiptin.

Þýska liðið náði aðeins að endurskipuleggja sig í hálfleiknum og lítið gekk hjá spænska liðinu að skapa sér hættuleg færi langt fram eftir seinni hálfleiknum.

Ferskir fætur í sóknarlínu Spánar náðu ekki að breyta gangi leiksins því það var allt lokað og læst.

Þýska liðið var síðan næstum því búið að stela þessu í lokin á venjulegum leiktíma. Skot Klöru Bühl fór í varnarmann og datt niður í fjærhornið en Catalina Coll sýndi frábær tilþrif í spænska markinu og bjargaði sínu liði.

Það gerðist ekki mikið í framlengingunni fyrr en að Bonmatí afgreiddi leikinn og tryggði heimsmeisturum Spánar sæti í úrslitaleiknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira