Erlent

For­sætis­ráð­herra segir að á­tökin gætu færst nær stríði

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Nærri 140 þúsund hafa þurft að flýja heimili sín á Taílandi og nærri 35 þúsund í Kambódíu. 
Nærri 140 þúsund hafa þurft að flýja heimili sín á Taílandi og nærri 35 þúsund í Kambódíu.  AP

Ráðamenn í Kambódíu hafa gert gert ákall eftir tafarlausu vopnahléi eftir að til átaka kom á landamærum Kambódíu og Taílands. Forsætisráðherra Taílands varar við því að átökin gætu færst nær stríði.

Að minnsta kosti 32, bæði hermenn og óbreyttir borgarar, eru fallnir í átökunum og nærri 200 þúsund hafa þurft að flýja heimili sín. Barist er á tólf vígstöðvum víðs vegar um landamærin. 

Kambódíumönnum og Taílendingum kemur ekki saman um hvor hliðin hóf átökin en Taílendingar saka Kambódíumenm um að hafa byrjað átökin með því að hafa skotið eldflaugum á þorp innan landamæra Taílands og á spítala í grenndinni á fimmtudag. Þá saka Taílendingar Kambódíumenn um að beina skotum sínum að óbryettum borgurum. Kambódíumenn saka Taílendinga sömuleiðis um að hafa skotið fyrst. 

Nú síðast hafa Kambódíumenn sakað Taílendinga um að beita klasasprengjum, sem eru bannaðar víða í heiminum vegna áhrifanna sem þær kunna að hafa á byggð og almenna borgara. Taíland hefur ekki svarað ásökununum. 

BBC hefur eftir Chhea Keo, sendiherra Kambódíu gagnvart Sameinuðu þjóðunum að kambódíska ríkið bæði um skilyrðislaust vopnahlé. 

Þá segir Maris Sangiampongsa utanríkisráðherra Taílands að Kambódía þyrfti að sýna velvild ef vopnahlésviðræður ættu fram að ganga. Reuters hefur eftir honum að engin þörf sé á að önnur ríki grípi inn í. 

Phumtham Wechayachai starfandi forsætisráðherra Taílands varaði í gær við því að átökin gætu færst nær stríði. Hermenn beiti þungavopnum og barist sé á tólf vígstöðvum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×