Sport

Bönnuðu öllum leik­mönnum liðsins að koma inn í landið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donald Trump bannar íbúum ákveðna þjóða að koma til Bandaríkjanna og það bitnar á hafnaboltaliði frá Venesúela.
Donald Trump bannar íbúum ákveðna þjóða að koma til Bandaríkjanna og það bitnar á hafnaboltaliði frá Venesúela. Getty/Chip Somodevilla

Er þetta eitthvað sem við munum sjá á heimsmeistaramótinu í fótbolta á næsta ári? Það er von að fólk velti því fyrir sér eftir að hafa horft upp á hvað kom fyrir lið sem ætlaði að keppa í Bandaríkjunum.

Liðið sem um ræðir var meðal þátttökuliða á heimsmeistaramótinu í Litlu deild hafnaboltans. Mótið sem um ræðir heitir „Little League Senior Baseball World Series“ og fer fram árlega.

Hafnaboltalið frá Venesúela hafði unnið sér þátttökurétt á mótinu en varð að gefa það frá sér. Ástæðan var að öllum leikmönnum liðsins var bannað að koma inn í landið.

Bandaríkin samþykktu ekki vegabréf Venesúelamannanna sem þurfa því að sitja heima.

Í síðasta mánuði bannaði Donald Trump Bandaríkjaforseti íbúa þrettán þjóða að koma til Bandaríkjanna. Venesúela er í þeim hópi.

Það er búist við að þeir íþróttamenn sem eiga að keppa á HM í fótbolta í Bandaríkjunum næsta sumar fái sérstaka undanþágu en hvað þá með stuðningsmenn og fjölskyldumeðlimi leikmanna?

Engin slík undanþága var hins vegar í boði fyrir leikmenn hafnaboltaliðsins Cacique Mara sem koma frá Maracaibo í Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×