Innlent

Stúlka flutt á sjúkra­hús eftir fall í sjóinn við Reynisfjöru

Agnar Már Másson skrifar
Afar hvasst er á Suðurlandi þar sem gul viðvörun var í gildi í gær. Mynd úr safni.
Afar hvasst er á Suðurlandi þar sem gul viðvörun var í gildi í gær. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Barnung stúlka sem féll í sjóinn við Reynisfjöru í dag er fundin og hefur verið flutt á sjúkrahús í Reykjavík en lögreglan segir að ekki sé „vitað um ástand“ hennar. Um erlenda ferðamenn er að ræða. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar, björgunarskipið Þór og björgunarsveitir voru kallaðar út skömmu fyrir þrjú eftir að einstaklingur fór í sjóinn við Reynisfjöru í Mýrdalnum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er um barnunga stúlku að ræða. Faðir og tvær systur hafi farið í sjóinn. Faðirinn og önnur stúlkan komist í land en ekki hin.

Lögreglan á Suðurlandi skrifar nú á Facebook að um erlenda ferðamenn sé að ræða.

„Þyrla Landhelgisgæslunnar fann manneskjuna sem hafnaði í sjónum við Reynisfjöru fyrr í dag. Verið er að flytja viðkomandi á sjúkrahús í Reykjavík en ekki er vitað um ástand. Um er að ræða barnunga stúlku sem var á ferð með fjölskyldu sinni, þau eru erlendir ferðamenn,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Þyrla gæslunnar lenti á Reykjavíkurflugvelli upp úr klukkan 17, samkvæmt flugkortagögnum.

Lögreglan, björgunarsveitir og björgunarskipið Þór voru einnig kölluð út og var mikill viðbúnaður á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×