Fótbolti

Röddin við það að brotna í hjart­næmri ræðu Cloé Eyju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cloé Eyja Lacasse þakkaði fyrir stuðninginn á liðsfundi Utah Royals þegar tilkynnt að hún væri loksins laus af meiðslalistanum.
Cloé Eyja Lacasse þakkaði fyrir stuðninginn á liðsfundi Utah Royals þegar tilkynnt að hún væri loksins laus af meiðslalistanum. Utah Royals

Kanadíska-íslenska knattspyrnukonan Cloé Eyja Lacasse er að koma til baka eftir krossbandsslit og hefur nú verið tekin af meiðslalistanum hjá liði sínu í bandaríska boltanum.

Lacasse sleit krossband í október 2024 en getur nú tekið á því á fullu á nýjan leik með liði sínu Utah Royals FC.

Lacasse fékk íslenskt vegabréf eftir að hafa spilað í fimm tímabil með ÍBV. Hún fór frá Vestmannaeyjum til Portúgals, þaðan til Arsenal og er nú í bandarísku deildinni.

Utah Royals setti myndband inn á miðla sína af því þegar Cloé Eyja hélt hjartnæma ræðu fyrir framan liðsfélaga sína. Eftir 291 dag var hún loksins leikfær á ný.

„Ég held að flest ykkar vitið það að ég hef aldrei lent í svona alvarlegum meiðslum áður og þetta hefur því verið mjög erfitt fyrir mig,“ sagði Cloé Eyja í ræðu sinni á liðsfundinum.

„Ég vil ekki verða leið. Þegar ég fór heim þá var ég hrædd við að koma til baka og koma inn í þetta umhverfi. Nú er röddin mín að brotna,“ sagði Cloé en hélt samt áfram.

„Ég óttaðist það að það yrði svo erfitt fyrir mig að vera í kringum fótboltann þegar ég gat ekki spilað fótbolta. Þegar ég var heima þá sá ég að það voru einmitt þið í liðinu sem ég saknaði. Ég er svo þakklát fyrir það að þið hjálpuðu mér á þessu ferðalagi til baka,“ sagði Cloé.

„Þið gerðuð mér auðvelt fyrir að mæta í vinnuna og fengu mig til að brosa. Líka á slæmu dögunum. Ég er rosalega þakklát fyrir það og fyrir læknaliðið að vera tilbúið að takast á við persónuleikann minn. Ég þakklát og ánægð að geta nú hjálpað liðinu á ný,“ sagði Cloé eins og sjá má með því að fletta hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×