Fótbolti

„Rýr stigasöfnun í deildinni vissu­lega á­hyggju­efni“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Þjálfarinn Sölvi Geir Ottesen gefur skipanir.
Þjálfarinn Sölvi Geir Ottesen gefur skipanir. Vísir/Diego

Sölvi Geir Ottesen var að mörgu leyti sáttur við spilamennsku Víkings þrátt fyrir tap liðsins gegn Stjörnunni í Bestu-deild karla í fótbolta í Víkinni í kvöld. Sölvi Geir hefur þó áhyggjur af rýrri uppskeru í deildinni upp á síðkastið og fannst vanta upp á einbeitingu í báðum vítateigum í leiknum í kvöld. 

„Mér fannst koma flottir inn í þennan leik og orkustigið bara fínt í liðinu allan leikinn. Þetta var að mínu mati furðulegur fótboltaleikur. Við vorum að komast í góðar stöður og fá færi áður en þeir skora,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings.

„Það vantaði svolítið fókus hjá okkur í báðum vítateigunum í dag og þeir komast í 2-0 án þess að ná að skapa mörg færi á okkur. Við herjuðum á þá en það dugði ekki til og stigasöfnunin okkar í deildinni undanfarið er áhyggjuefni,“ sagði Sölvi en Víkingur hefur fengið þrjú stig í síðustu fimm deildarleikjum sínum.

„Kannski erum við þjálfarateymið of kröfuharðir að láta liðið spila af jafn mikilli ákefð og raun ber vitni. Við þurfum að skoða það hvort að það sé of mikið á leikmenn lagt að pressa eins hátt og mikið og við gerum og spila jafn orkufrekan fótbolta og við erum að spila í þeirri törn sem við erum í þessa stundina,“ sagði hann.

„Við erum ennþá í öðru sæti í deildinni og fimm stigum frá toppnum þrátt fyrir rýra stigasöfnunin í síðustu leikjum okkar. Það er nóg eftir af stigum í pottinum og við þurfum bara að fara að bæta stigasöfnun okkar. Það er ekki langur tími til þess að pæla í þessu tapi sem er í raun bara fínt. Næst er það hörku verkefni gegn Bröndby og við setjum fullan fókus á það núna,“ sagði þjálfari Víkings um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×