Innlent

Vöknuðu með rottu upp í rúmi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Brauðbrettið fer í ruslið eftir þetta segir Sara.
Brauðbrettið fer í ruslið eftir þetta segir Sara. Aðsend

Sara Bjarney Ólafsdóttir og maður hennar fengu afar óvelkominn gest heim til sín í nótt, þegar stærðarinnar rotta var komin til þeirra upp í rúm. Maður hennar fór fram, náði í brauðbretti og afgreiddi málið.

„Maðurinn minn bara vakti mig í nótt, og sagði mér að halda ró minni, en þá var rottan á fótleggnum hans. Hann sagði mér að fara út með krakkana strax, svo fór hann og kláraði málið. Hún er úti í poka núna,“ segir Sara.

„Hann tók eitt brauðbrettið mitt sem fær að fara í ruslið með rottunni.“

Sara býr í íbúð á jarðhæð í Laugardalnum, en hún hefur sett sig í samband við meindýraþjónustu borgarinnar, sem sækir rottuna seinna í dag.

Hvernig er tilfinningin að fá þennan óvænta gest í svefnherbergið?

„Þetta var vel ógeðslegt. Ég hefði viljað bara kveikja í íbúðinni og flytja út. Það væru mín fyrstu viðbrögð. Ég hugsa að það sé bara net fyrir glugga og aldrei lofta út aftur.“

„En núna höldum við bara áfram, það er bara að fylgjast með. Þetta er vonandi einsdæmi, og eins og meindýraeyðirinn frá borginni sagði, þá er líklegra að maður vinni í lottói en að maður fái rottu upp í rúm.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×