Innlent

Hraðbankaþjófur játar sök

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þjófurinn notaði gröfu til að stela hraðbankanum.
Þjófurinn notaði gröfu til að stela hraðbankanum. Vísir/Anton Brink

Karlmaður á fimmtugsaldri, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í tengslum við þjófnað á hraðbanka í Mosfellsbæ í síðustu viku, hefur játað sök og hefur hann verið úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu til 24. september að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í tilkynningu lögreglunnar segir að rannsókn á þjófnaðinum gangi vel og að maðurinn hafi játað sök. Hraðbankinn, með peningana innanborðs, fannst í umdæminu í fyrradag og kemur fram í tilkynningu lögreglunnar að fólksbifreið sem leitað var að í þágu rannsóknarinnar sé sömuleiðis fundin.

„Við rannsókn málsins hafa borist ýmsar ábendingar, ekki síst myndefni frá almenningi, og fyrir það vill lögreglan þakka sérstaklega,“ segir að lokum í tilkynningunni.

Málið telst upplýst

„Málið telst upplýst en rannsókn er ekki lokið. Það er hellings vinna eftir en það er komin játning fram og málið telst upplýst,“ segir Hjördís Sigurbjartsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttastofu.

Maðurinn sem úrskurðaður hefur verið í síbrotagæslu er einnig grunaður í Hamraborgarmálinu svokallaða þar sem milljónum var stolið. Maðurinn gaf skýrslu í gegnum fjarfundabúnað við aðalmeðferð Gufunesmálsins í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Hann sagði að honum hefði verið boðið með til Þorlákshafnar kvöldið fyrir nóttina örlagaríku þegar atburðir málsins áttu sér stað.


Tengdar fréttir

Grunaður hraðbankaþjófur nennti ekki með austur nóttina örlagaríku

Maður sem er bæði grunaður um stuld á hraðbanka í Mosfellsbæ í síðustu viku og í Hamraborgarmálinu svokallaða gaf skýrslu í gegnum fjarfundabúnað við aðalmeðferð Gufunesmálsins í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Hann sagði að honum hefði verið boðið með til Þorlákshafnar kvöldið fyrir nóttina örlagaríku þegar atburðir málsins áttu sér stað.

Hraðbankinn fannst á Hólmsheiði

Hraðbankinn sem hvarf úr verslunarkjarna í Mosfellsbæ á dögunum fannst við hitaveitutanka á Hólmsheiði síðdegis í gær samkvæmt heimildum fréttastofu. Peningarnir voru enn í honum; alls tuttugu og tvær milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×