Körfubolti

Hilmar Smári til Litáens

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hilmar Smári Henningsson eftir oddaleik Tindastóls og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn. Garðbæingar unnu leikinn, 82-77.
Hilmar Smári Henningsson eftir oddaleik Tindastóls og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn. Garðbæingar unnu leikinn, 82-77. vísir/hulda margrét

Íslenski landsliðsmaðurinn í körfubolta, Hilmar Smári Henningsson, hefur samið við Jonava í Litáen. Hann kemur til liðsins frá Íslandsmeisturum Stjörnunnar.

Greint var frá þessu eftir lokaleik Íslands á Evrópumótinu. Íslendingar lutu þá í lægra haldi fyrir Frökkum, 114-74. Hilmar skoraði níu stig í leiknum.

Hilmar var í lykilhlutverki hjá Stjörnunni sem varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins í vor. Í úrslitarimmunni vann Stjarnan Tindastól, 3-2.

Hilmar, sem varð 25 ára í gær, hefur reynslu af því að spila erlendis en hann lék með Valencia á Spáni 2019-21 og Eisbären Bremerhaven í Þýskalandi 2023-24. Hann er uppalinn hjá Haukum en hefur einnig leikið með Þór á Akureyri og Stjörnunni eins og áður sagði.

Á síðasta tímabili var Hilmar með 21,6 stig, 4,1 frákast og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildarkeppninni. Í úrslitakeppninni var hann með 19,8 stig, 4,1 frákast og 3,4 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×