Erlent

Eltihrellir sat fyrir lög­reglu­þjónum og skaut þrjá til bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan í Pennsylvaníu var með umfangsmikið viðbragð eftir skotbardagann.
Lögreglan í Pennsylvaníu var með umfangsmikið viðbragð eftir skotbardagann. AP/Matt Slocum

Þrír lögregluþjónar voru skotnir til bana og tveir til viðbótar særðir í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum í gær. Einn maður var skotinn til bana af lögregluþjónum en ráðamenn hafa hingað til sagt lítið um hvað gerðist í rauninni.

Gærdagurinn er talinn einn sá blóðugasti fyrir lögregluþjóna í Pennsylvaníu um árabil.

Skotbardaginn varð í North Codorus Township, sem er tiltölulega strjálbýlt svæði í Pennsylvaínu en þar búa tæplega tíu þúsund manns.

Washington Post hefur eftir forsvarsmönnum lögreglunnar að umræddir lögregluþjónar hafi verið að fylgja eftir rannsókn sem tengist einhverskonar heimiliserjum eða ofbeldi. Lögreglan hefur varist því að gefa upp frekari upplýsingar á þeim grunni að enn eigi eftir að fara í húsleit vegna rannsóknarinnar.

Ekki hefur verið gefið upp hverjir lögregluþjónarnir eru, frá hvaða embættum þeir voru eða hver maðurinn sem skaut þá og var svo skotinn var.

Þungvopnaður í felulitum

CNN hefur þó eftir heimildarmönnum sínum að umræddir lögregluþjónar hafi verið að framfylgja handtökuskipun gegn manni vegna ásakana um að hann hefði áreitt fyrrverandi kærustu sína og hrellt hana.

Maðurinn fannst ekki heima hjá sér og var verið að leita að honum. Þegar lögregluþjónar fóru heim til kærustunnar var maðurinn þar, samkvæmt heimildum CNN, þungvopnaður og í felulitum.

Óljóst er hvort að hann hafi verið að bíða eftir lögregluþjónum eða konunni.

AP fréttaveitan hefur eftir manni sem býr í nágrenni við staðinn þar sem skotbardaginn varð. Hann segist hafa heyrt þó nokkuð mörgum skotum hleypt af. Lögreglan hafi í kjölfarið verið með umfangsmikið viðbragð, þyrlu og um þrjátíu lögreglubíla.

Hinir særðu lögregluþjónar eru sagðir í alvarlegu en stöðugu ásigkomulagi á sjúkrahúsi.

Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu, segir atvikið hafa valdið mikilli skelkun á svæðinu kringum North Codorus og að gærdagurinn hafi verið einstaklega sorglegur fyrir allt ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×