Viðskipti innlent

Play hættir starf­semi

Árni Sæberg skrifar
Einar Örn Ólafsson var forstjóri Play.
Einar Örn Ólafsson var forstjóri Play. Vísir/Einar

Flugfélagið Play hefur hætt starfsemi. Fjögur hundruð missa vinnunna og ferðaáætlanir þúsunda farþega eru í uppnámi. Hægt er að lesa um nýjustu tíðindi í vaktinni að neðan. 

Í tilkynningu þess efnis segir að ástæður þessarar ákvörðunar séu margar, þar með talið að rekstur félagsins hafi lengi gengið verr en vonir stóðu til, flugmiðasala hafi ekki gengið vel síðustu vikur og mánuði í kjölfar neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um reksturinn og þá hafi ríkt ósætti á meðal hluta starfsmanna félagsins vegna breytinga á stefnu þess.

Miklar vonir hafi verið bundnar við breytt viðskiptalíkan félagsins sem kynnt var síðasta haust og hafi á sínum tíma þótt ástæða til töluverðrar bjartsýni. Því miður sé nú orðið ljóst að þær breytingar geti ekki skilað árangri sem dugar til að vinna á þeim djúpstæða vanda félagsins sem safnast hefur upp. Eftir á að hyggja hefði þurft að innleiða þær fyrr.

„Í ljósi ofangreinds bindur Play enda á sína starfsemi í dag. Ljóst er að þúsundir farþega þurfa að endurskipuleggja heimför, á um það bil 400 missa vinnuna og samstarfsaðilar fyrirtækisins verða fyrir tjóni.“

Við þetta tilefni leggi stjórn og stjórnendur Play áherslu á að allt hafi verið reynt til þess að niðurstaðan yrði önnur. Þessi ákvörðun sé sú allra þungbærasta í stöðunni og hún sé aðeins tekin í ljósi þess að aðrar leiðir töldust fullreyndar. Stjórnin biðji alla þá sem verða fyrir neikvæðum afleiðingum vegna þessarar niðurstöðu innilega afsökunar.

Fréttin verður uppfærð.

Ef Vaktin birtist ekki hér fyrir neðan er ráð að endurhlaða (e. refresh) síðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×