Erlent

„Við erum ekki í stríði en við búum ekki við frið“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kanslari Þýskalands segir Evrópu ekki standa í stríði en ekki búa við frið.
Kanslari Þýskalands segir Evrópu ekki standa í stríði en ekki búa við frið. Getty/Kay Nietfeld

„Við erum ekki í stríði en við búum ekki við frið,“ sagði Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, á viðburði í Dusseldorf í gær og vísaði þar til sambýlis Evrópu við Rússland.

Merz sagði stríð Rússa í Úkraínu stríð gegn lýðræði og frelsi í Evrópu og að markmið þeirra væri að grafa undan samstöðu Evrópuríkjanna. Þá ítrekaði hann stuðning sinn við hugmyndir um að nota frystar eignir Rússlands til að fjármagna varnir Úkraínu. Varnarmálaráðherrann Boris Pistorius sagði Þýskaland reiðubúið til að grípa til varna fyrir Eystrasaltsríkin.

Evrópuleiðtogar hafa sameinast um að grípa til varna gegn ágengni Rússa. Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlangshafsbandalagsins, sagði í morgun að þrátt fyrir að það lægi ekki enn fyrir hvort Rússar hefðu verið ábyrgir fyrir umferð dróna á flugvöllum í Danmörku, bæru þeir sannarlega ábyrgð á atvikum í Póllandi og Eistlandi.

Þá sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að Evrópa þyrfti að svara áreitni Rússa með afgerandi hætti. Nefndi hún meðal annars hugmyndir um að reisa „drónavegg“.

Evrópusambandið hefur fallist á að tveimur milljörðum evra verði varið í dróna fyrir Úkraínu. Þá sagði J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, í gær að stjórnvöld væru að íhuga að sjá Úkraínumönnum fyrir langdrægum Tomahawk eldflaugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×