Skoðun

Ár­borg - spennandi kostur fyrir öll

Guðný Björk Pálmadóttir skrifar

Byggjum upp samfélag með fjölbreyttum atvinnutækifærum fyrir alla – óháð aldri, kyni, færni eða menntun.

Sveitarfélagið Árborg stendur á tímamótum. Með ört vaxandi íbúafjölda og fjölbreyttum samfélagslegum þörfum er nauðsynlegt að skoða atvinnutækifæri innan sveitarfélagsins. Það er að mínu mati grundvöllur áframhaldandi þróunar að hafa skýra stefnu í atvinnumálum – stefnu sem styður við sjálfbæra þróun í atvinnulífinu, eykur fjölbreytni í starfsmöguleikum og bætir þar með lífsgæði íbúa.

Það er mikilvægt að við horfum inn á við og spyrjum okkur sjálf: Hvernig getum haldið í unga fólkið okkur og fengið það til að velja Árborg sem framtíðar búsetustað? Og hvernig aukum við lífsgæði allra íbúa á svæðinu?

Undanfarin ár hafa verið fjárhagslega krefjandi fyrir sveitarfélagið vegna umfangsmikilla innviðafjárfestinga. En eftir jákvæðan viðsnúning á fjárhag sveitarfélagsins er mikilvægt að tryggja áframhaldandi vöxt og stöðugleika til að verjast því að ekki þurfi að fara í sársaukafullar aðgerðir aftur. Við þurfum að nýta núverandi meðbyr markvisst til að byggja upp öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Við þurfum skýra stefnu og markvissa aðgerðaáætlun. Nú er tækifæri til aðgerða!

Fjölbreytni atvinnugreina

Fjölbreytt atvinnulíf er forsenda sjálfbærs samfélags. Við viljum að þeir sem velja að búa í Árborg geti notið þeirra lífsgæða sem felast í því að vinna í heimabyggð. Við verðum að forðast einhæfni í atvinnulífinu – við þurfum að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi. Árborg er þannig staðsett að tækifærin eru fjölmörg og svæðið ætti að vera í fararbroddi með aðstöðu fyrir fjarvinnustöðvar og störf án staðsetningar.

Til að ná þessu markmiði þurfum við bæði að horfa inn á við og út á við. Við þurfum að hlúa vel að þeim fyrirtækjum sem eru á svæðinu nú þegar, skapa umhverfi til vaxtar og mæta þeim á þeirra forsendum með góðu úrvali af atvinnu- og skrifstofuhúsnæði. Við þurfum líka að sækja út, greiða leið og búa til hvata til að stærri fyrirtæki sjái hag sinn í að starfa á svæðinu. Það gerum við með álitlegum húsakostum og góðu aðgengi að fjarvinnuaðstöðu.

Enn fremur er mikilvægt að halda áfram og bæta í stuðning við frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki. Halda áfram að styðja við nýjar hugmyndir og koma þeim í framkvæmd, en líka taka næsta skref og styðja við þroskaðri hugmyndir og fyrirtæki sem þurfa aðeins meiri byr undir báða vængi til að fljúga af stað. Þetta mun með tímanum skila fjölbreyttari atvinnutækifærum fyrir öll sem búa í Árborg.

Menntun og þekkingarsamfélag

Til að styðja við fjölbreytt atvinnulíf er menntun lykilþáttur. Menntun er grunnur að flestu. Aukin þekking leiðir til aukinnar verðmætasköpunar. Það er því gríðarlega mikilvægt að öll fái tækifæri til að mennta sig á því sviði sem hugurinn girnist og hafi eftir það tækifæri til að finna starf við hæfi í heimabyggð.

Mikilvægt er að efla tengsl við menntastofnanir um allt land og byggja upp öflugt samstarf. Halda þarf áfram að styðja við og byggja upp fjölbreytta fjarnámsmöguleika og styðja við nám í heimabyggð. Einnig er mikilvægt að auka samstarf við atvinnulífið á svæðinu og styðja við samstarfsverkefni milli atvinnulífs og skóla. Sveitarfélagið þarf að vera virkt í að greiða leið fyrir slíkt samstarf og skapa umhverfi þar sem það getur blómstrað.

Mikilvægt er að gera hvata til rannsóknarvinnu og nýsköpunar innan þeirra fyrirtækja sem starfa á svæðinu. Auðvelda þeim fyrirtækjum sem eru á svæðinu að auka við þekkingu og starfa að markvissri nýsköpun. Með þessu er hægt að byggja upp sterkt þekkingarsamfélag sem mun ósjálfrátt leiða af sér ný fyrirtæki og störf á svæðinu.

Samspil ferðaþjónustu og menningar

Menntun og þekkingarsköpun skila sér víða, meðal annars inn í skapandi greinar og menningarlíf. Hægt er að gera betur í uppbygginu skapandi greina með sterkari tenglum við ferðaþjónustuna. Sérstaða er aðdráttarafl. Það eru fjölmörg tækifæri til staðar til að efla tengsl milli þessara greina til að skapa enn meiri sérstöðu í Árborg sem áfangastað. Uppbygging sveitarfélagsins síðustu ár hefur skilað miklu í þessum efnum en alltaf má bæta og gera enn betur. Hér þarf sveitarfélagið að leggja sitt af mörkum til að ryðja braut og búa til tækifæri.

Sveitarfélagið þarf skýra stefnu fyrir nærumhverfið um hvernig við viljum byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu og hvernig við viljum tengja hana saman við menningarlíf. Þetta er ekki nógu vel nýtt auðlind og tækifærin fjölmörg. Við þurfum aðgerðaáætlun um hvernig við eflum listafólk á svæðinu og tengjum það inn í ferðaþjónustuna til að styrkja stoðirnar enn frekar.

Að lokum

Árborg hefur alla burði til að verða leiðandi sveitarfélag í atvinnuuppbyggingu, menntun og menningu. Með skýrri framtíðarsýn, öflugri samvinnu og markvissum aðgerðum getum við skapað samfélag þar sem fjölbreytt tækifæri blómstra og íbúar njóta góðra lífsgæða.

Tækifærin eru til staðar – nú er rétti tíminn til að grípa þau.

Höfundur er nýsköpunarverkfræðingur, frumkvöðull og stjórnarmaður Viðreisnar í Árnessýslu




Skoðun

Sjá meira


×