Handbolti

Allt upp á tíu hjá Elínu Klöru

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir var besti leikmaður Hauka síðustu ár og er nú á sigurbraut með besta liði Svíþjóðar.
Elín Klara Þorkelsdóttir var besti leikmaður Hauka síðustu ár og er nú á sigurbraut með besta liði Svíþjóðar. vísir/Hulda Margrét

Byrjunin hjá Elínu Klöru Þorkelsdóttur í atvinnumennsku hefur gengið eins og í sögu. Sænska handboltaliðið Sävehof hefur nú fagnað sigri í öllum tíu leikjum sínum eftir komu Haukakonunnar sem er í algjöru aðalhlutverki.

Sävehof vann öruggan sigur gegn Aranäs í þriðju umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag, 40-32, á heimavelli sínum.

Elín Klara hélt uppteknum hætti og varð markahæst hjá Sävehof með átta mörk, þar af þrjú úr þremur skotum af vítalínunni.

Sävehof hefur þar með unnið alla þrjá deildarleiki sína til þessa og Elín Klara verið markahæst í þeim öllum.

Þar að auki varð Elín Klara markahæst í báðum leikjunum gegn Benfica, sem Sävehof vann, í 2. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar og áður hafði liðið unnið fimm leiki í sænska bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×